Guðni boðar Birgittu á sinn fund

Fulltrúar Pírata á fundi forseta Íslands fyrr í dag
Fulltrúar Pírata á fundi forseta Íslands fyrr í dag Ljósmynd/Pressphotos

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformann Pírata, á sinn fund á Bessastöðum kl. 16 í dag. Að fundinum loknum mun forseti ræða við fjölmiðla.

Gera má ráð fyrir að Guðni muni afhenda Birgittu umboð til stjórnarmyndunar, en það hefur þó ekki fengist staðfest. Forsetinn ræddi í dag við forystumenn allra stjórnmálaflokkanna sem fulltrúa eiga á þingi um stöðuna varðandi mögulegar stjórnarmyndunarviðræður.

Þær stjórnarmyndunarviðræður sem til þessa hafa farið fram hafa ekki skilað tilætluðum árangri en Birgitta hefur lagt áherslu á að viðræður um mögulega fimm flokka ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafi ekki verið fullreyndar þegar þeim var slitið í síðustu viku.

Viðræðurnar fóru fram undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, en Birgitta hefur sagt að nálgast þurfi verkstjórnina með öðrum og nýstárlegri hætti til þess að ná árangri. Fyrri viðræður hafi þannig farið fram á forsendum stefnuskrár VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka