Fjórir hæstaréttardómarar áttu samanlagt 487 þúsund hluti í Glitni á árunum 2007-2008 að því er fram kemur í Fréttablaðinu í morgun og byggir á gögnum frá slitastjórn Glitnis sem blaðið hefur undir höndum.
Þetta eru þau Eiríkur Tómasson, Ingveldur Einarsdóttir og Árni Kolbeinsson (sem látið hefur af störfum). Í blaðinu kemur fram að virði þessara hluta hafi farið í 15 milljónir króna, er það var hvað hæst í júlí 2007. Áður hefur komið fram í Kastljósi að Ólafur Börkur Þorvaldsson hafi átt bréf í Glitni í fimm mánuði árið 2007 fyrir um 14 milljónir króna.
Frétt mbl.is: Telur sig ekki hafa verið vanhæfan
Dómararnir eru allir sagðir hafa setið og dæmt í málum sem varði hagsmuni Glitnis beint, eða óbeint, fyrir og eftir hrun.
Hlutabréf dómaranna fjögurra í bankanum urðu öll verðlaus þegar Glitnir féll haustið 2008 og fjárhagslegt tjón þeirra því þó nokkuð. Tjón Markúsar Sigurbjörnssonar er þó sagt hafa verið minna en annarra dómara, þar sem hann hafði selt alla hluti sína í bankanum í snemma árs 2007 fyrir um 44,6 milljónir króna, líkt og fram kom í Kastljósi í gær.
Markús er síðan sagður hafa farið með söluhagnaðinn og nokkurt fé til viðbótar, alls 60 milljónir króna, í eignastýringu hjá Glitni. Fréttablaðið segir gögn sem það hefur undir höndum sýna að Markús hafi síðan tekið um 15 milljónir út af peningamarkaðssjóðum sínum örfáum dögum fyrir hrun.