Dregur úr trausti á dómstólum

mbl.is

Frétta­flutn­ing­ur af dómur­um Hæsta­rétt­ar er mjög til þess fall­inn að draga úr trausti á dóm­stól­um, að sögn Jóns Hösk­ulds­son­ar, for­manns dóm­stólaráðs. Greini­legt sé af hon­um að bæta megi verklag nefnd­ar um dóm­ara­störf og skrá og varðveita gögn bet­ur.

Komið hef­ur fram í Kast­ljósi og Frétta­blaðinu að nokkr­ir dóm­ar­ar sem hafa dæmt í mál­um sem tengj­ast Glitni töpuðu tölu­verðu fé við fall bank­ans í hrun­inu. Óljóst sé hvort þeir hafi van­rækt til­kynn­inga­skyldu um hags­muni sína í bank­an­um til nefnd­ar um dóm­ara­störf.

Frétt Mbl.is: Skapa tor­tryggni um störf dóm­ara

„Okk­ur er auðvitað í mun hjá dóm­stólaráði að vinna til baka eða auka traust al­menn­ings og þeirra sem við dóm­stól­ana starfa á dóm­stól­un­um. Slík­ur frétta­flutn­ing­ur og upp­lýs­ing­ar sem ber­ast fjöl­miðlum eru nátt­úru­lega mjög til þess falln­ar að draga úr trausti al­menn­ings á dóm­stól­um,“ seg­ir Jón sem vill þó ekki full­yrða að upp­lýs­ing­arn­ar hafi verið sett­ar fram gagn­gert til þess að rýra til­trú á dóm­stól­um líkt og formaður Dóm­ara­fé­lags Íslands sagði við Mbl.is í morg­un.

Jón legg­ur áherslu á að mál­efn­in sem fjallað var um í Kast­ljósi og nefnd um dóm­ara­störf heyri á eng­an hátt und­ir dóm­stólaráð. Nefnd­in heyri beint und­ir inn­an­rík­is­ráðuneytið. Ólöf Nor­dal inn­an­rík­is­ráðherra sagði við RÚV að hún myndi ekki tjá sig um frétta­flutn­ing­inn af hæsta­rétt­ar­dómur­un­um.

Pott­ur brot­inn hjá nefnd um dóm­ara­störf

Í Kast­ljósþætti gær­kvölds­ins kom fram að ekki hefðu fund­ist gögn hjá nefnd­inni til að staðfesta að dóm­ar­ar hefðu til­kynnt um hags­muna­tengsl sín. Þó var í þætt­in­um sýnt bréf sem einn dóm­ar­anna sagðist hafa sent á sín­um tíma. Kom fram að ein­hver gögn, þó þess­um mál­um ótengd, hefðu fund­ist í kassa á heim­ili fyrr­ver­andi for­manns nefnd­ar­inn­ar.

Jón seg­ir það sjálfsagt at­hug­un­ar­efni hvort nefnd um dóm­ara­störf geti hugað bet­ur að gagna­vörslu sinni og skrán­ingu á upp­lýs­ing­um.

Frétt Mbl.is: Markús svar­ar fyr­ir verðbréf­in

„Það er nátt­úru­lega hlut­ur sem nefnd­in verður að svara fyr­ir hvort hún ætli eitt­hvað að bæta verklag og breyta. Það er greini­legt að þarna er um að ræða litla nefnd sem fær kannski ekki voðal­ega mörg er­indi. Það er greini­lega ein­hver pott­ur brot­inn þar. Það er greini­legt af þess­um frétt­um að það má bæta það verklag, að skrá er­ind­in og geyma gögn­in með ör­ugg­ari og trygg­ari hætti en þau sem þarna er talað um,“ seg­ir Jón.

Dóm­stólaráð vinn­ur nú að því leggja sitt af mörk­um til að end­ur­heimta traust al­menn­ings á dóm­stól­um. Þannig stend­ur til að gera þjón­ustu­könn­un á meðal þeirra sem standa næst dóm­stól­un­um; lög­manna, ákær­enda og starfs­fólks dóm­stól­anna að hluta til.

„Það er nátt­úru­lega gert til þess að at­huga á hvaða stigi þessi þjón­usta er, hvert viðhorf þeirra sem næst henni standa er og hvað er hægt að gera til úr­bóta,“ seg­ir formaður dóm­stólaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka