Mansalsmálið í Vík fellt niður

Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að …
Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að hafa haldið konunum tveimur í kjallara. Mansal.

Mál gegn manni sem grunar var um mansal í Vík í Mýrdal hefur verið fellt niður hvað varðar mansalsákæruna og hefur nú verið sent lögreglu til  meðferðar varðandi ætlað brot á atvinnuréttindum útlendinga. Þetta staðfestir Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.

Ákvörðunin um niðurfellingu mansalsákærunnar er kæranleg til ríkissaksóknara, að sögn Arnþrúðar sem kveðst þó ekki vita til að það  hafi verið gert.

Það var í febrúar á þessu ári sem lögreglan á Suðurlandi handtók erlendan karlmann í Vík í Mýrdal vegna gruns um vinnumansal. Var maðurinn, sem var undirverktaki hjá Víkurprjón, grunaður um að hafa haldið tveimur konum með erlent ríkisfang í vinnuþrælkun.  

Embætti héraðssaksóknara fékk málið til meðferðar í lok apríl frá lögreglunni á Suðurlandi, en sendi málið aftur til ítarlegrar framhaldsrannsóknar lögreglu. Lögregla greindi svo frá því í lok september að málið yrði sent aftur til embætti héraðssaksóknara á næstu vikum og hefur héraðssaksóknari nú fellt það niður.

Maðurinn var í varðhaldi í tvær vik­ur í febrúar, en beiðni lög­reglu um áfram­hald­andi gæslu­v­arðhald var hafnað af dóm­stól­um í byrj­un mars. Síðar var hann dæmd­ur í far­bann sem rann út 16. júlí og hefur hann frá þeim tíma verið frjáls ferða sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert