Íslenskum nemendum hrakar enn

Stelpur í valfrjálsri ólympíustærðfræði.
Stelpur í valfrjálsri ólympíustærðfræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Færni íslenskra nemenda í náttúrufræði, stærðfræði og lestri hefur hrakað mikið á síðustu tíu árum. Er færni í öllum sviðum nú undir meðaltali í OECD-ríkjunum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum PISA-rannsóknarinnar fyrir árið 2015.

Færni íslenskra nemenda á náttúruvísindasviði hefur hrakað mest en staðan hefur aldrei verið verri á öllum þremur sviðum. Lesskilningur íslenskra nemenda hefur nánast staðið í stað frá árinu 2006 en Ísland er þó neðst allra norrænu landanna á því sviði. Stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi er að sama skapi lakari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.

PISA-rannsóknin er framkvæmd á þriggja ára fresti í öllum ríkjum OECD og var því síðast gerð árið 2012. Menntamálastofnun annast framkvæmd PISA á Íslandi fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Í 16.-24. sæti á þremur sviðum

Um 540 þúsund nemendur í 72 löndum voru prófaðir árið 2015. Singapúr kom best út úr rannsókninni en Japan, Eistland, Finnland og Kanada voru í næstu sætum. Nítján lönd eru með hærra meðaltal en Ísland þegar kemur að lesskilningi, 15 hvað varðar læsi á stærðfræði og 23 hafa hærra meðtalal á sviði náttúruvísindanna.

Samkvæmt skýrslu Menntamálastofnunar um niðurstöður PISA-2015 eiga 22% nemenda erfitt með að lesa sér til gagns en það er 7 prósentustigum hærra en árið 2000. Er staðan almennt lakari í dreifbýli og á höfuðborgarsvæðinu er staðan svipuð og í hinum OECD ríkjunum.

Ekki er marktækur munur á læsi á stærðfræði frá því árið 2012 en í skýrslu Menntamálastofnunar kemur fram að kynjamunur sé lítill sem enginn sem líklega megi rekja til þess að stúlkum hafi hrakað, frekar en að strákar hafi bætt sig. Í stærðfræðilæsi er meðaltal á höfuðborgarsvæðinu nálægt OECD-meðaltalinu en lakara í dreifbýli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert