Karlmaður hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald þangað til dómur er fallinn í máli hans, en ekki lengur en til 23. desember. Var maðurinn ákærður í mars á þessu ári fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn sambýliskonu sinni. Þá var hann talinn hafa reynt að hafa áhrif á framburð konunnar.
Frétt mbl.is: Grunaður um að alvarleg brot gegn sambýliskonu sinni
Frétt mbl.is: Misþyrmdi sambýliskonu sinni
Frétt mbl.is: Áfram gæsluvarðhald vegna misþyrmingar
Maðurinn var í júní dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í héraðsdómi, en málinu var svo áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins og var það flutt í Hæstarétti 28. nóvember og er nú beðið dóms. Brot þau sem maðurinn hefur nú verið sakfelldur fyrir geta varðað allt að 16 ára fangelsi.
Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi svipt sambýliskonu sína frelsi í fjórar klukkustundir á heimili þeirra og ítrekað veist að henni, slegið hana hnefahöggum og rifið í hár hennar. Þá hafi hann skipað konunni að setjast á stól en svo sparkað honum undan henni svo hún féll á gólfið.
Meðan á þessu stóð er maðurinn sagður hafa hótað konunni ítrekað lífláti og meinað útgöngu af heimilinu.
Þá á maðurinn að hafa tekið myndir af kynfærum hennar og áreitt hana kynferðislega auk þess sem hann þvingaði hana til munnmaka og endaþarmsmaka. Hlaut konan af þessu mar á höfði og víðar auk þess sem jaxl brotnaði.
Þá kom fram við rannsókn málsins að maðurinn og faðir hans reyndu ítrekað að hafa áhrif á framburð konunnar með því að setja sig í samband við hana.