Fjármálaeftirlitið vill ekki tjá sig um hvort rannsakað verði hvaðan upplýsingar um hagsmuni hæstaréttardómara sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga koma. Allt að tveggja ára fangelsisdómur getur legið við broti á þagnarskyldu sem starfsmenn fjármálafyrirtækja eru bundnir.
Fjallað hefur verið um tap nokkurra hæstaréttardómara á falli Glitnis í bankahruninu í Kastljósi og Fréttablaðinu undanfarna daga. Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, hefur meðal annars ályktað að gögnin komi frá Glitni og þeir sem hafi lekið þeim ætli sér að hafa áhrif á meðferð dómsmála.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Mbl.is um gagnalekinn verði rannsakaður segist Fjármálaeftirlitið ekki veita upplýsingar um aðgerðir sínar eða skoðanir fyrr en að málalokum í samræmi við gagnsæisstefnu stofnunarinnar.
Í lögum um fjármálafyrirtæki er kveðið á um þagnarskyldu stjórnarmanna fjármálafyrirtækja, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og annarra sem taka að sér störf fyrir fyrirtækin um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Þagnarskyldan nær einnig til þeirra sem veita upplýsingum af þessu tagi móttöku. Hægt er að leggja stjórnvaldssektir á þá sem rjúfa þagnarskylduna og jafnvel dæmi í allt að tveggja ára fangelsi.