Góðviðri í stað glórulauss byls

Þá var veðrið vont. Núna er beðið eftir vetri. Þær …
Þá var veðrið vont. Núna er beðið eftir vetri. Þær eru mjög ólíkar, forsíður Morgunblaðsins frá því 5. desember í fyrra og þann 6. í ár.

„Glórulaus bylur“. „Fólk varað við því að vera á ferð“. Svona var veðrinu lýst í Morgunblaðinu og á mbl.is fyrir nákvæmlega ári. Ekki er við þennan vanda að glíma í dag. Snjólaust er víðast hvar, flestir vegir vel færir og snjómokstursvélar standa óhreyfðar. Þær eru þó til þjónustu reiðubúnar því eitt er næsta víst; vetur konungur fer bráðlega að rumska.

Veðurvefur mbl.is

Hitatölurnar á landinu í dag er sumar nokkuð sambærilegar þeim sem finna má á svölu íslensku sumri eða sérlega mildu hausti. Margir fagna, sumir jafnvel spara peninga. Þannig er það m.a. hjá Vegagerðinni þar sem starfsmenn eru með krosslagða fingur og vona að veðurblíðan haldist svo ná megi fjárhagsáætlun. Það reyndist sannarlega ekki raunin í fyrra en þá kostaði vetrarþjónustan, í sérlega erfiðum vetri, um 3,3 milljarða króna. Í ár er gert ráð fyrir 2,6 milljörðum í hana og eins og staðan er núna er útlit fyrir að það markmið náist.

„Þetta hefur tvímælalaust áhrif á okkur og gerir okkur vonandi kleift að halda okkur innan fjárhagsrammans,“ segir Einar Pálsson, forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnar.

Oft er sagt að Íslendingar hafi lítið veðurminni og því skal þetta rifjað upp: Í fyrra var mikið óveður í byrjun desember. Færð spilltist um allt land og vegir urðu víða ófærir. Fréttir um krapaél, frost, skemmdir á eignum og raflínum voru fyrirferðarmiklar. 

Jólamánuðurinn í ár er allt annar, að minnsta kosti hvað snjómokstur varðar. Þessa dagana eru til dæmis vegirnir til Norðurfjarðar og Mjóafjarðar færir, sem er að sögn Einars óvenjulegt.

Enginn snjór en alltaf hálka

En er tíminn núna þá nýttur í að bóna snjóruðningstækin? Einar segir að nóg sé af verkefnunum þrátt fyrir snjóleysið. Snjómoksturinn er lítill en hálkuvarnirnar eru ekkert minni í ár en í fyrra. „Það þarf meiri hálkuvarnir í svona mildu veðurfari,“ segir Einar. Vegagerðin ýmist sandar eða saltar vegi. Á þeim má nú flesta daga finna hálku, að minnsta kosti hálkubletti.

„Við krossum bara fingur og vonum að þetta vari sem lengst,“ segir Einar um færðina. „Svo fer sólin bráðlega að hækka á lofti og þá styttist í vorið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert