Hlýjustu desemberdagar í 145 ár

Sólarlag við Seltjarnarnes. Veðurblíðan sem við erum að upplifa í …
Sólarlag við Seltjarnarnes. Veðurblíðan sem við erum að upplifa í Reykjavík er söguleg. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fyrsta vika desember er sú hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík frá því að mælingar hófust árið 1871 eða fyrir 145 árum. Ólíklegt er að árið 2016 verði það hlýjasta frá upphafi mælinga hér á landi en ljóst er að það verður á „topp tíu“.

„Það er ekki alveg ljóst hvar þetta ár lendir en ég tel líklegt eins og staðan er í augnablikinu að það verði í hópi þeirra tíu hlýjustu,“ segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Veðurvefur mbl.is.

Trausti segir að rækilegt kuldakast þurfi til að þessi spá rætist ekki. Hins vegar sé ekkert útilokað, hitasveiflur séu tíðar og þekktar á þessum árstíma. Þó telur hann ólíklegt að árið verði hlýjast allra þeirra sem mæld hafa verið. „Það er þó hugsanlegt. Þetta er svona eins og þegar eitthvert lið í íslenska fótboltanum þarf að vinna með sjö marka mun. Árið er þó í þeim flokki frekar en að vera eins og lið sem þarf að vinna með 30 marka mun.“ Sum sé: Enn sé möguleikinn til staðar þótt ekki séu líkurnar nú miklar.

Því hefur þegar verið spáð að árið 2016 verði það hlýjasta á heimsvísu. Trausti segir að hlýja árið okkar á Íslandi eigi sér sömu skýringar en þó aðeins að ákveðnu leyti.

„Við tökum auðvitað þátt í þessari almennu hlýnun,“ útskýrir Trausti. „En sveiflur hér frá ári til árs eru eiginlega tvöfaldar á við það sem gerist á heimsvísu. Sem þýðir að við getum hér verið sitt á hvað, við erum á miklu skriði í kringum heimshitann.“ Þannig geti á Íslandi komið köld ár þó að almennt sé hlýrra en í meðalári á heimsvísu. 

Hlýindin núna skýrast fyrst og fremst af því hvernig vindáttir hafa hegðað sér í haust. Almenn hlýnun í heiminum skýrir ekki ein og sér blíða veðrið á Íslandi þessar vikurnar. 

Trausti segir aðallega tvennt koma til: Suðlægar vindáttir hafa ráðið ríkjum að undanförnu og þar að auki hefur hafís verið með minnsta móti í norðurhöfum. „Allt loft sem kemur úr norðri er ívið hlýrra en venjulega. Þá sjaldan að það hefur komið norðanátt hefur hún verið heldur hlýrri en venjulega.“

Þetta á þó einnig ákveðnar rætur að rekja til hlýnunar í heiminum almennt.

Átta stigum fyrir ofan meðallag

Og desemberblíðan nú er svo sannarlega einstök á Íslandi.

„Þessir sömu sex dagar sem liðnir eru af mánuðinum hafa aldrei verið hlýrri hér í Reykjavík,“ bendir Trausti á. Í gær hafi til dæmis hitinn í Reykjavík verið 8 stigum fyrir ofan meðallag.

Á Akureyri má hins vegar finna dæmi um hlýrri desemberdaga í sögubókunum. 

„Það er ekkert lát að sjá á því hlýindaskeiði sem við höfum upplifað á þessari öld,“ segir Traustur spurður um hvort að hlýindin nú séu fyrirboði um hvað koma skuli í veðrinu hér á landi. Ólíklegt sé þó að veturinn verði allur svona mildur. Janúar, febrúar og mars séu yfirleitt snjóþyngstu mánuðirnir í Reykjavík. Hann rifjar svo upp að veturinn 2010 hafi verið mjög snjóléttur. Þá hafi ekkert snjóað svo heitið geti. 

Trausti Jónsson veðurfræðingur man tímana tvenna í veðrinu. Hann segist …
Trausti Jónsson veðurfræðingur man tímana tvenna í veðrinu. Hann segist alltaf vera að sjá eitthvað nýtt. mbl.is/Árni Sæberg

Alltaf eitthvað nýtt í veðrinu

Trausti hefur starfað á Veðurstofu Íslands frá árinu 1979 og enn lengur hefur hann fylgst náið með veðri.

Hann neitar því að veðráttan nú sé sú óvenjulegasta sem hann hafi upplifað. „Nei, nei, ég er ýmsu vanur á ýmsa kanta,“ segir Trausti. „Það er mín reynsla að það er alltaf eitthvað nýtt. Eftir allan þennan tíma er ég alltaf að upplifa hluti sem ég hef ekki séð áður. Ég held alltaf að nú hljóti ég að fara að verða búinn að sjá þetta allt. En þá kemur eitthvað nýtt.“

Trausti er virkur bloggari og hér má fylgjast með áhugaverðum skrifum hans um veðráttuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka