Í gær gekk Hugrún Halldórsdóttir á Esjuna. Á sama tíma í fyrra var hún að moka snjó af tröppum aðalbyggingar Háskóla Íslands með æfingahópnum sínum. Varla er hægt að ímynda sér ólíkari desemberdaga. „Í desember í fyrra fór ég tvisvar til útlanda, ég bara gat ekki meiri kulda,“ segir sjónvarpskonan glaðbeitta og hlær dátt.
Einmuna veðurblíða hefur verið víða um landið síðustu daga og vikur. Hitinn hefur verið eins og á hlýjum haustdegi og snjó er nánast hvergi að sjá.
Hugrún er dugleg að njóta útivistar í nánast hvernig veðri sem er. Blíðan síðustu daga hefur því freistað hennar ítrekað. Þó að lítið mál sé að ganga á Esjuna í veðri eins og nú er segir Hugrún, sem er vanur fjallgöngumaður, að nauðsynlegt sé að hafa gott ljós og einnig brodda meðferðis.
„Það dimmir auðvitað svo snemma núna og mjög hratt svo það er mjög gott að hafa ljós,“ segir Hugrún. Hún hóf gönguna um kl. 16 og er hún kom upp að Steini var komið kolniðamyrkur.
Hún gerði sér þó lítið fyrir og hljóp niður fjallið. „Færðin var það góð,“ segir hún. Þó að lítill sem enginn snjór sé í Esjunni, fyrir utan nokkra litla skafla, sé jarðvegurinn blautur og því háll. „Það er því eins gott að hafa allan varann á.“
Fleiri fengu sömu hugmynd í gær og Hugrún því hún mætti hópi fólks við rætur Esjunnar. Engan skal undra, það er ekki á hverjum vetrardegi sem nokkuð greiðfært er á fjöll.
„Áður fyrr var ég þannig að ég stundaði enga útivist eftir að það byrjaði að snjóa. Ég var svona eins og bjarndýr sem leggst í híði. En það er algjörlega breytt og nú reyni ég að nýta góða daga til að njóta útiverunnar, helst í góðum félagsskap. Þá nenni ég að fara,“ segir hún hlæjandi.