Krefjast fjármagns í Dýrafjarðargöng

SASV krefjast breytinga á fjárlagafrumvarpinu svo unnt sé að fjármagna …
SASV krefjast breytinga á fjárlagafrumvarpinu svo unnt sé að fjármagna Dýrafjarðargöng. mbl.is/Sigurður Bogi

Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum, SASV, krefjast þess að Alþingi geri nauðsynlegar breytingar á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi til að halda megi áfram með áætlun um opnun tilboða í Dýrafjarðargöng í janúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum. 

Á nýliðnu kjörtímabili skapaðist þverpólitísk samstaða allra flokka á Alþingi um að ráðast í gerð Dýrafjarðarganga í samræmi við samgönguáætlun sem samþykkt var skömmu fyrir þinglok. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Mánuður er liðinn frá því að Vegagerðin tilkynnt bjóðendum að tilboð í göngin yrðu opnuð í byrjun janúar næstkomandi að því tilskildu að fjárlögin yrðu samþykkt. „Það kemur því á óvart að í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga skuli ekki hafa verið gert ráð fyrir þeim fjármunum sem nauðsynlegir eru til að unnt sé að halda fyrirhugaðri áætlun,“ segir jafnframt í tilkynningunni. Því er bætt við í tilkynningunni að atvinnurekendur og íbúar á Vestfjörðum hafi gert ráð fyrir því að staðið yrði við gefin og langþráð fyrirheit enda munu göngin skapa nauðsynleg sóknarfæri í atvinnulífi fjórðungsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert