Slökkt hefur verið á ofnum kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík eftir að starfsmaður slasaðist í rafmagnsslysi þar aðfaranótt þriðjudags. Að sögn deildarstjóra Vinnueftirlitsins virðist slysið ekki hafa haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsmanninn.
Tilkynning um slysið barst Vinnueftirliti ríkisins í gærmorgun. Þórunn Sveinsdóttir, deildarstjóri í þróunar- og eftirlitsdeild þess, segir að rannsókn á slysinu sé í gangi. Fyrirtækið hafi slökkt á ofnunum og unnið sé að því að tryggja að atburðurinn endurtaki sig ekki. Ekki verði kveikt á ofnunum aftur fyrr en þeirri vinnu sé lokið.
Slysið megi flokka sem rafmagnsslys. Enn sé fylgst vel með starfsmanninum sem varð fyrir rafstuði.
Vinnueftirlitið hefur þrisvar farið í heimsókn í verksmiðjuna, síðast í gær en sá fundur með stjórnendum fyrirtækisins hafi verið ákveðinn áður en slysið átti sér stað. Þórunn segir að starfsmenn Vinnueftirlitsins muni fara í reglulegar heimsóknir í verksmiðjuna á næstu vikum og fylgja málum eftir.
Stundin birti myndband í gær sem er sagt sýna mikla mengun inni í sal verksmiðjunnar. Haft var eftir ónefndum starfsmanni að nær ólíft væri þar inni og að lítil sem engin loftræsting væri á vinnusvæðinu.
Þórunn segir að slökkt hafi verið á ofnum þegar fulltrúar Vinnueftirlitsins heimsóttu verksmiðjuna í gær. Ekki hafi borið á mengun af þessu tagi í heimsókn í síðustu viku.
„En ég ætla ekki að alhæfa nákvæmlega hvernig þetta er á öllum tímum. Við komum þarna vikuna á undan. Þá var ofninn í gangi og þá varð ekki vart við neitt slíkt,“ segir hún.
Íbúar í Reykjanesbæ hafa lýst óánægju með mengun sem þeir segja berast frá verksmiðjunni. Hafa þeir lýst reykjarlykt og óþægindum af hennar völdum.
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti í dag að halda íbúafund um ófyrirséða loftmengun frá kísilverksmiðjunni á miðvikudag í næstu viku, 14. desember. Á fundinum verða fulltrúar frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar, United Silicon, Orkurannsóknum Keilis og frá Umhverfisstofnun. Að lokinni framsögu verða pallborðsumræður og leyfðar fyrrispurnir úr sal.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að íbúar hafi kallað eftir fundi til að ræða ófyrirséða mengun frá kísilverinu og bæjaryfirvöld séu að verða við þeirri ósk.
„Þessi byrjunarfasi kemur okkur á óvart og er ekki eins og menn höfðu búist við. Það hafa of margir orðið fyrir of miklum óþægindum af þessu þannig að við verðum bara að fá skýringar,“ segir Kjartan Már, spurður að því hvort að bæjaryfirvöld hafi sjálf áhyggjur af menguninni.
Ekki náðist í stjórnendur United Silicon við vinnslu fréttarinnar.