Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur sent sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrirspurn í framhaldi af umfjöllun Kastljóss um málefni Brúneggja ehf. og upplýsingagjöf til almennings um brot á reglum um dýravelferð.
Þingflokkur Vinstri grænna segir í tilkynningu, að fyrirspurnin hafi kviknað vegna þeirra ýmsu veggja sem fjölmiðlar hafi rekist á í leit sinni að upplýsingum sem eigi fullt erindi við almenning og snúi helst að stjórnsýslunni í málinu og hvernig ráðuneytið muni bregðast við til að bæta upplýsingagjöf til almennings.