Ákært fyrir fleiri brot byssubræðra

Söluturninn í Iðufelli þar sem skotárásin átti sér stað fyrir …
Söluturninn í Iðufelli þar sem skotárásin átti sér stað fyrir utan.

Bræðurnir sem ákærðir hafa verið fyrir að hafa skotið úr haglabyssu við söluturn í Fellahverfi í Breiðholti hafa einnig verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í mars á þessu ári og ólögmæta nauðung í júlí. Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar sem felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að framlengja ætti gæsluvarðhald yfir öðrum bróðurnum sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps í Breiðholtsmálinu.

Í dómnum kemur fram að bróðirinn hafi frá árinu 2005 hlotið átta dóma og sjö sinnum gengist undir viðurlög með sektargerð lögreglustjóra eða viðurlagaákvörðun fyrir dómi. Er um að ræða líkamsárás, tvö auðgunarbrot og ávana- og fíkniefnabrot. Það sem af er þessu ári hefur hann hlotið þrjá dóma sem allir voru alvarlegri. Rúv sagði fyrst frá málinu í dag.

Í ákæru málsins eru mennirnir sakaðir um sérstaklega hættulega líkamsárás við Leifasjoppu í Fellahverfi í mars þar sem öðrum bróðurnum er gefið að sök að hafa skvett vatnsblönduðu ammoníaki í andlitið á manni. Þá hafi þeir lamið manninn ítrekað með kylfu og spýtu í höfuðið þannig að hann var með mar á hálsi og höfði og ætingu á augnloki og augnsvæði. Varðandi nauðungina í júlí eru þeir ákærðir um að hafa neytt mann með hótunum um ofbeldi til að keyra bifreið á tiltekinn stað. Maðurinn náði hins vegar að yfirgefa bílinn og gera lögreglu viðvart.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að ákæruvaldið meti það svo að bróðirinn sem hefur verið í gæsluvarðhaldi hafi verið mjög virkur í afbrotum undanfarið og að eitt mál sé enn í skoðun hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu gegn honum. Er það mat ákæruvaldsins að hann sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

Hæstiréttur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að nokkuð sé liðið milli fyrri brota mannsins og svo skotárásarinnar í Breiðholti. Því verði „ekki talið að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ólokið. Þá getur ekki skipt máli þótt hann hafi rofið skilorð fyrrgreinds dóms réttarins frá 16. júní 2016, enda hefur varnaraðili setið lengur í gæsluvarðhaldi en svarar til refsingar eftir þeim dómi.“

Er því úrskurður héraðsdóms um framhald gæsluvarðhalds til 23. desember felldur úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert