Framhaldið gæti ráðist um helgina

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Hjörtur

„Menn virðast vera jákvæðari fyrir markaðsleið í sjávarútvegi en áður. Það er allavega tilfinningin eftir daginn,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is en fundað var í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka í dag. Vísar hann þar til uppboðs á hluta aflaheimilda. Aðspurður segir hann að einkum hafi verið rætt um sjávarútvegsmálin í dag. Fyrst á fundi forystumanna flokkanna í morgun og síðan af öðrum fulltrúum þeirra eftir hádegi. 

Vinstrihreyfingin - grænt framboð, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin hafa átt í óformlegum viðræðum undanfarn daga í kjölfar þess að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, stjórnarmyndunarumboð fyrir viku. Fundað verður aftur eftir hádegi á morgun að sögn Benedikts en ekki hefur verið ákveðið með frekari fundi. Einn dagur sé tekinn í einu. Hann segist aðspurður ekki reikna með að fundurinn verði langur.

Katrín sett fram áhugaverðar hugmyndir

Benedikt segir mest hafa verið rætt um ríkisfjármálin í gær. Hann segir Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, hafa sett fram hugmyndir um fjármögnun þeirra útgjalda sem þurfi að standa straum af á næsta ári til þess að brúa bilið í ríkisbókhaldinu og hafi ekki verið fjármögnuð. Þar væri um að ræða tekjur sem ætti að vera hægt að „ná í tiltölulega auðveldlega.“

Spurður hvort það þýddi skattahækkanir segist hann ekki ætla að segja nákvæmlega til um það. „Hún var bara með hugmyndir sem ættu að geta gengið ágætlega upp.“ Hins vegar leggur hann áherslu á að þar væri aðeins verið að tala um næsta ár. „Það eru allir sammála um að það sé ekki mikið svigrúm núna um áramótin. Þau eru bara að koma og það verður að leggja fram fjárlög núverandi starfsstjórnar.“

Lengra yfir til VG en annarra flokka

Varðandi kerfisbreytingar sem rætt hefur verið um segir Benedikt ljóst að styttra sé á milli hans flokks, Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar í þeim efnum en lengra yfir til VG. „Það er þannig en ég svona met það þannig að bilið gæti verið að minnka. En það er mitt mat. Ég ætla ekki að fara að tala fyrir aðra flokka.“

Benedikt segir, spurður hvort hann telji að formlegar viðræður á milli flokkanna kunni að hefjast bráðlega, að fyrst þurfti að liggja fyrir að forsendur fyrir stjórnarsamstarfi séu fyrir hendi. „Formlegar viðræður þýða kannski að það sé kominn tími til þess að setjast niður og semja stjórnarsáttmála.“ Viðræðurnar séu ekki alveg komnar svo langt.

„Ég hugsa að við munum bara sjá það um helgina. Hvort þetta gengur upp eða ekki. Þá verður það kannski staðfest eða ekki hvort þetta mat mitt, að við séum að nálgast, sé rétt. Það eru ýmsir þröskuldar enn sem þarf að komast yfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert