Stjórn Faxaflóahafna samþykkti í morgun að segja upp lóðaleigusamningi Hringrásar. Fyrirtækið fær frest til að flytja sig en ber að hreinsa lóðina áður en það hverfur á braut. Frá þessu greinir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í vikulegum pistli sínum.
Dagur segir Hringrás fá 20 daga til að hreyfa við andmælum.
Á sama fundi var samþykkt að segja fjármuni í nauðsynlegt viðhald í gamla Slippnum. „Því fylgdi bókun stjórnarinnar um að hafnarstjórn vill að slippurinn fái að halda áfram starfsemi sinni eins lengi og hægt er,“ segir borgarstjóri.
Forsvarsmenn Hringrásar sendu frá sér tilkynningu í síðustu viku vegna bruna á athafnasvæði fyrirtækisins. Þar sögðust þeir m.a. sýna áhyggjum af staðsetningu fyrirtækisins fullan skilning og að þeir væru opnir fyrir flutningi þess á hentugra svæði.
„Vonast fyrirtækið eftir góðu samstarfi við borgaryfirvöld og Faxaflóahafnir við að finna hentugri staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði enn fremur í tilkynningunni.
Mbl.is hafði samband við Kristján Ólafsson, framkvæmdastjóra Hringrásar, vegna málsins. Hann vildi ekki tjá sig að öðru leyti en því að stjórn fyrirtækisins myndi fara yfir málið.