Tímabært að kona stýri KSÍ

Halla Gunnarsdóttir býr nú og starfar í Bretlandi.
Halla Gunnarsdóttir býr nú og starfar í Bretlandi. Árni Sæberg

„Ég hef ekki velt því fyrir mér af neinni alvöru enn þá en auðvitað fylgist ég með framvindu mála og útiloka ekki neitt á þessu stigi. Mér var mikil alvara á sínum tíma og myndi mjög gjarnan vilja sjá einhverja konu fara fram að þessu sinni. Það er kominn tími til að kona stýri Knattspyrnusambandi Íslands.“

Þetta segir Halla Gunnarsdóttir, spurð hvort hún sé að íhuga framboð til formanns KSÍ. Framboð hennar árið 2007 olli nokkru uppnámi innan hreyfingarinnar. „Þegar Jafet Ólafsson bauð sig fram 2007 urðu menn svolítið móðgaðir og ofboðslega móðgaðir þegar ég bauð mig fram. Það var hreinlega erfitt að ná utan um allar þær tilfinningar sem þá komu upp á yfirborðið.“

– Sögðu menn þetta beint út?

„Já, þeir gerðu það. Það var ekki bara KSÍ; ef það er einhver íþrótt á Íslandi sem hefur verið Mekka fyrir karlmennskuna er það fótbolti og það stigu margir fram og höfðu mjög sterkar skoðanir á þessu. Einhver sagði að þetta væri ekki huggulegt kvöldverðarboð fyrir konu, heldur alvörustarf. Ég fékk líka minn skammt af gagnrýni fyrir að fara ekki réttu leiðina; inn í stjórnir aðildarfélaga og þaðan inn í stjórn KSÍ og bjóða mig síðan fram til formanns. Á tímabili var ég farin að halda að ég ætti möguleika á að vinna, ekki vegna þess að rökhugsunin sagði mér svo, heldur vegna viðbragðanna. Þau voru svo rosaleg að ég hlaut að vera einhver raunveruleg ógn.“

Halla segir bæði Guðna Bergsson og Björn Einarsson, sem íhuga nú að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, Geir Þorsteinssyni, hafa margt til brunns að bera enda hafi þeir hvor á sinn hátt víðtæka reynslu af knattspyrnustarfi. „Það yrði skriðþungi í þessum framboðum; það er enginn vafi. Ég veit samt ekki, frekar en aðrir, hvernig þessir menn myndu stjórna sambandinu. Björn hefur talað um reynslu sína úr rekstri og eflaust kemur hún honum til góða, þar sem KSÍ fer með mikið fé, en við megum ekki gleyma því að þetta er líka hreyfing utan um vinsælustu íþrótt í heimi og þess vegna þurfa menn að gera vandlega grein fyrir sinni heildarsýn.“

Halla segir ábyrgð fulltrúa á ársþingi KSÍ eftir áramótin mikla enda séu spennandi tímar fram undan í íslenskri knattspyrnu og mikilvægt að rétti maðurinn leiði starfið. „Fótbolti er ekki bara skemmtun; hann er líka uppeldisíþrótt og íþrótt sem getur unnið gegn fordómum í samfélaginu og heiminum öllum. Nú er heldur betur tækifæri til að hafa áhrif, þegar bæði karla- og kvennalandsliðinu vegnar eins vel og raun ber vitni og hafa vakið mikla athygli á heimsvísu. Því miður sér maður ekki að blóðið renni nógu rösklega gegnum æðarnar hjá KSÍ núna og með því er ég alls ekki að gera lítið úr því góða starfi sem sambandið hefur unnið; það er margt jákvætt, eins og ég hef komið inn á. En tækifærið hefur hins vegar aldrei verið stærra; ekki bara inn á við á Íslandi, heldur líka út á við. Nú er lag!“

Nánar er rætt við Höllu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sögulegt ár er senn að baki í íslenskri knattspyrnusögu.
Sögulegt ár er senn að baki í íslenskri knattspyrnusögu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert