Um 70% grunnskólakennara hafa kosið um nýjan kjarasamning Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga í hádeginu í dag. Kosningaþátttakan um þessa kjarasamninga er þegar orðin meiri en hún var um síðustu kjarasamninga sem voru felldir. Þá kusu alls 67% um samninginn.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir kosninguna hafa farið vel af stað. Niðurstaða um hvort samningarnir verði samþykktir eða ekki mun liggja fyrir um kvöldmatarleytið á mánudaginn, 12. desember, en lokað verður fyrir kosningu um nýjan kjarasamning kl. 16.
„Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig þetta fer því kennarar eru dreifður hópur. Það kjósa allir út frá sínum forsendum sem eru misjafnar,“ segir Ásthildur Lóa Þórisdóttir, trúnaðarmaður kennara í Ábæjarskóla. Hún nefnir sem dæmi að hún hafi heyrt af því að fólk á landsbyggðinni væri hlynntara samningunum en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir allar líkur benda til þess að grunnskólakennarar í Árbæjarskóla muni fella samninginn.