„Lengi var óljóst hvernig hátíðarhöldum flokksins yrði háttað og skilaboðin sem komu frá formanni flokksins voru þau að gera sem mest úr deginum sem víðast.“
Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni vegna frétta af veisluhöldum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns flokksins og fyrrverandi formanns hans, í Norðausturkjördæmi næsta föstudag þegar fagnað verður 100 ára afmæli Framsóknarflokksins.
Frétt mbl.is: Sigmundur boðar til veislu nyrðra
Gunnar Bragi segir fréttir af málinu byggðar á einhverri „kjaftasíðu á Akureyri“ sem hann hafi aldrei áður heyrt minnst á og vísar þar til vefsíðunnar Kaffid.is. Þar sé vitnað í „illa rætna“ einstaklinga sem sagðir séu félagar í Framsóknarflokknum. Talað sé um að veisla Sigmundar Davíðs feli í sér stríðsyfirlýsingu.
„Þá er væntanlega skollin á heimsstyrjöld því framsóknarmenn í Skagafirði halda upp á þetta merka afmæli sama dag. Ég og Elsa Lára höfum boðað komu okkar norður og ekki erum við á leið úr flokknum,“ segir hann og vísar þar til Elsu Láru Arnardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. „Það er í raun ótrúlegt að fjölmiðlar skuli hlaupa á eftir kjaftagangi og bulli.“
Sigmundur Davíð tjáir sig stuttlega um málið á Facebook í dag og bendir þar á að aldarafmæli Framsóknarflokksins verði víða fagnað á landinu. Þar á meðal í Reykjavík, á Akureyri, Seyðisfirði og Sauðárkróki. Mbl.is hafði eftir framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins, Einari Gunnari Einarssyni, í morgun að veisla Sigmundar væri ekki hluti af formlegri afmælisdagskrá flokksins.