Yfir eitt þúsund manns hafa sótt um hæli á Íslandi það sem af er ári og hafa þeir aldrei verið fleiri. Gríðarleg fjölgun fólks á flótta undanfarin ár þýðir að jafnframt fjölgar ungmennum sem eru fylgdarlaus á flóttanum. Það er börn sem eru yngri en átján ára og eru ekki í fylgd foreldra eða annarra forráðamanna.
Ísland er bundið af alþjóðasáttmálum um að veita börnum aukna vernd á við aðra sem hingað leita og þegar vafi leikur á um aldur viðkomandi er leitað eftir aðstoð réttartannlækna við aldursgreiningar.
Tveir tannlæknar annast þessar aldursgreiningar hér á landi, Svend Richter og Sigríður Rósa Víðisdóttir.
Mbl.is ræddi við þau um starf réttartannlækna en þau eru bæði með langa reynslu í því starfi. Þau eru auk þess í kennslanefnd ríkislögreglustjóra og hefur Svend gert það síðan slík nefnd var sett á laggirnar á Íslandi árið 1989, lengst allra á Norðurlöndum.
Svend og Sigríður Rósa segja mjög mikilvægt að vel sé vandað til verka enda geti það skipt sköpum um líf viðkomandi einstaklings að hann sé rétt aldursgreindur. Til þess að tryggja að fyllstu nákvæmni sé gætt taka alltaf tveir tannlæknar þátt í rannsókninni auk þess sem túlkar, starfsmenn barnaverndar og Rauða krossins eru viðstaddir rannsóknirnar sem gerðar eru við tannlæknadeild Háskóla Íslands.
„Réttartannlækningar eru fræðigrein sem skoðar og túlkar tannlæknisfræðileg gögn, oftast í þágu réttarkerfisins,“ segir Svend og bætir við að meðal þess sé að bera kennsl á menn, bæði lifandi og látna.
„Síðan skoðum við einnig ýmis tryggingamál og ágreiningsmál. Við höfum verið sérfræðivitni fyrir dómstólum. Þá hafa bitför verið til rannsóknar hjá okkur í sakamálum,“ segir Svend.
Þau segja að flestar aldursgreiningar sem gerðar eru á Íslandi tengist komu fylgdarlausra barna hingað til lands og þeim hafi fjölgað ár frá ári, ekki síst undanfarin tvö ár.
Spurður um fjölda slíkra aldursgreininga segir Svend að þau séu bundin trúnaði um fjöldann og eins hversu margir þeirra sem þau rannsaka eru réttilega á þeim aldri sem þeir segjast vera.
Þau hafa jafnframt komið að aldursgreiningu í mansalsmálum. Ef grunur er um mansal og að viðkomandi sé á barnsaldri þá fer fram slík rannsókn alveg eins og þegar forsjárlaus börn á flótta leita hingað til lands eftir vernd.
Svend segir að það sé ekki bara hér á landi sem aldursgreiningarmálum hefur fjölgað. Þróunin sé sú sama annars staðar á Norðurlöndum. „Við erum í miklu og góðu samstarfi við starfssystkini okkar þar sem og víðar í heiminum en aldursgreiningar á tönnum hafa verið gerðar í meira en 200 ár,“ segir Svend.
Í meistaraverkefni sínu við tannlæknadeild HÍ vann Sigríður Rósa stóra rannsókn á tannþroska barna og ungmenna á Íslandi. Alls notaði hún röntgenmyndir af tönnum 1.100 íslenskra barna og ungmenna og greindi tannþroska m.t.t. aldursgreiningar. Afraksturinn er viðamikill gagnagrunnur yfir tannþroska barna og ungmenna á Íslandi.
Gagnagrunnurinn er notaður með alþjóðlegum rannsóknum en niðurstaða hennar rannsóknar er í samræmi við erlendar rannsóknir. Sigríður Rósa segir að hægt sé að greina aldur barna og ungmenna út frá tannþroska með mjög mikilli nákvæmni og að stelpur og strákar ná ekki fullum tannþroska á sama tíma. Hins vegar skipti uppruni fólks litlu þegar kemur að slíkum aldursgreiningum.
Við aldursgreiningar eru teknar röntgenmyndir af öllum tönnum með breiðmynd og sérmyndir af jöxlum og framtönnum. Um 14 til 15 ára aldur eru allar fullorðinstennur fullmyndaðar nema endajaxlar. Tannþroska þeirra lýkur um tvítugt með að rætur eru fullmyndaðar og rótarendar lokaðir. Það er því litið til tannþroska endajaxla þegar greint er hvort viðkomandi er barn, yngri en 18 ára, segir Svend.
„Þegar við greinum endajaxl á þessu lokastigi þá er viðkomandi orðinn að minnsta kosti 20 ára. Þetta lokastig er viðvarandandi og hann gæti alveg eins verið 25 eða 30 ára,“ segir Sigríður Rósa.
Til að sem mestri nákvæmni sé náð er þremur mismunandi aðferðum beit til að meta aldur af tannþroska og er gefinn upp meðalaldur samkvæmt þeim og staðalfrávik til þess að tryggja það að viðkomandi sé aldrei greindur eldri en hann er í raun og veru.
Beiðni um slíkar aldursgreiningar á ungmennum koma annaðhvort frá Útlendingastofnun eða lögreglu og með beiðninni fylgir skriflegt samþykki hælisleitanda um að gangast undir greininguna. Honum er gert ljóst að ef hann vill ekki undirgangast hana þá er honum tekið sem fullorðnum einstaklingi af íslenskum yfirvöldum og það er því honum í hag að fara í slíka aldursgreiningu sé hann yngri en 18 ára líkt og hann segist vera.
Eins og fram kom hér að framan eu túlkur, starfsmaður barnaverndar, Rauða krossins og/eða Útlendingastofnunar viðstaddir rannsóknina. „Við ræðum við ungmennið sem kemur til rannsóknar, tökum sjúkrasögu, frásögn af uppvexti og aðbúnað í æsku. Síðan skoðum við munnhol viðkomandi og tökum röntgenmyndir,“ segir Svend.
Þau taka bæði fram að tannþroski fari ekki eftir því hvaðan þú kemur né heldur af hvaða kynþætti þú ert og því skipti það engu við slíka rannsóknir hvort viðkomandi hefur alist upp í Afganistan eða á Íslandi. Sá munur sem kann að vera á tannþroska milli kynþátta er mun minni heldur en innan hvers kynþáttar. Nauðsynlegt er að beita aðferðum sem fræðasamfélagið hefur komist að raun um að sé bestar. Tennurnar segja sína sögu hvaðan sem þú ert.
Sigríður Rósa og Svend segja að það sé einkum þrennt sem byggt er á við aldursgreiningar: Tennur, bein og kynþroski. Af þessum þremur aðferðum er aldursgreining út frá tönnum nákvæmust segja þau – svo lengi sem viðkomandi er ekki orðinn tvítugur eða eldri. Sjúkdómar og næringarskortur í uppvexti hafa ekki áhrif á tannþroska líkt og á beinþroska en margir sjúkdómar geta flýtt eða seinkað beinþroska. Tannþroski er stöðugur, en frávik vegna erfðafræðilegra truflana, s.s. osteopetrosis og ectodermal dysplasia, eru mjög sjaldgæf, en trufla ekki hraða hans, segir Svend.
Þau eru sammála um að oft fái rangfærslur um slíkar aldursgreiningar að stjórna umræðunni hér á landi sem og víðar enda auðvelt að koma ósannindum af stað á netinu líkt og dæmin sýna.
Það sem verra er þegar slíkar ranghugmyndir er jafnvel að finna í meistaraprófsritgerð í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík sem síðan er vísað til í umræðu um þessi mál. Jafnvel hafi því verið haldið fram af fólki, sem á að vita betur, í fjölmiðlum að það geti skeikað allt að fimm árum við aldursgreiningar út frá tönnum. Það sé einfaldlega rangt og engum til góðs að slíkum fullyrðingum sé haldið fram án þess að reynt sé að fá upplýsingar um hið rétta.
„Þeir sem vilja gagnrýna þessar aðferðir, það er að aldursgreina út frá tannþroska, segja að um einhæfar aðferðir sé að ræða og aldursgreiningin byggi á tannþroska eins kynþáttar sem sé yfirfærður á alla kynþætti. Það sem þeir vita hins vegar ekki er að breytileiki, sem kann að vera á milli kynþátta, er miklu minni heldur en sá breytileiki sem er innan hvers kynþáttar.
Eins hefur því verið haldið fram að það þurfi að innleiða nútímalegri og manneskjulegri aðferðir við aldursgreiningar og byggja aldursgreiningu á viðtölum fremur en röntgenmyndum af tönnum. Þetta er einfaldlega rangt og fátt ómannúðlegt að taka röntgenmyndir af tönnum og rannsaka tannþroska,“ segir Sigríður Rósa.
Svend bætir við að næringarskortur hafi ekki áhrif á tannþroska, líkt og á bein- og kynþroska, og eins og fram kom hér að framan þá eru það örfáir sjúkdómar sem geta haft áhrif á tannþroska og þeir eru mjög sjaldgæfir.
„Það eru miklu fleiri sjúkdómar sem geta haft áhrif á beinþroska og kynþroska heldur en nokkurn tíma á tannþroska. Það er svo margt sem getur haft áhrif á vöxt beina. Svo sem erfðir, sjúkdómar, kynferði og næring í uppvexti. Tennur stjórnast aftur á móti af allt öðru. Myndast hvað sem öðru líður líður,“ segir Svend.
Við tannlæknadeild fara nú fram tvær viðamiklar rannsóknir á tönnum til að greina aldur sem Svend og Sigríður Rósa stýra.
Þau segja að hægt sé að taka sem dæmi einstakling sem segist vera fimmtán ára þegar hann kemur hingað til lands. Þegar viðkomandi kemur í rannsókn til þeirra þá er farið yfir sögu hans og röntgenmyndir teknar af tönnum hans og munnholið rannsakað.
„Við komumst kannski að því að viðkomandi er að minnsta kosti 19,7 ára og staðalfrávik 1.4 ár og því mestar líkur að viðkomandi sé eldri en 18 ára og útilokað að hann sé 15 ára,“ segir Sigríður Rósa.
Ef viðkomandi segist vera 17 ára og reynist kannski vera 19 ára þá er ekki ólíklegt að það rúmist innan staðalfrávika og þá nýtur viðkomandi vafans.
„Vel að merkja – við sem vinnum við þessar aldursgreiningar lítum bara á fræðin og birtum okkar skýrslu. Það er annarra að taka ákvörðun um hvað þeir gera með gögnin. Við skiptum okkur ekki að því og vitum það ekki einu sinni,“ segir Sigríður Rósa og vísar þar til þess að þau senda skýrsluna frá sér til yfirvalda sem síðan úrskurða um framhald málsins.
Þeirra starf byggi á nákvæmum vísindum og því ekki erfitt fyrir fagfólk að greina aldur fólks sem ekki er orðið tvítugt. Eftir það er hægt að greina aldur fullorðinna af tönnum og er þá byggt á hrörnunarbreytingum tanna. Þá geta staðalfrávik verið frá nokkrum árum upp í 12 til 15 ár.
„Eftir að við tökum fólk í aldursgreiningu líður yfirleitt ekki meira en vika þangað til okkar niðurstaða liggur fyrir. Þetta er algjört grundvallaratriði enda engum gott að bíða lengi eftir slíkri niðurstöðu því framtíð viðkomandi er í húfi. Þangað til aldursgreining liggur fyrir þá er litið á viðkomandi sem barn,“ segir Svend.
Með fjölgun verkefna innan réttartannlæknisfræðinnar hér á landi er orðið nauðsynlegt að fjölga í hópi rannsakenda og eru nokkrir tannlæknar sem starfa á Íslandi að fara í gegnum alþjóðleg námskeið þar sem þeir læra hluta þessara fræða.
Svend hefur kennt námskeið við tannlæknadeild í réttartannlæknisfræði en hefur einnig um langt árabil kennt erlendis á alþjóðlegum námskeiðum og hefur lengi leitt þessar rannsóknir hér á landi.
Svend segir að það styttist í að hann komist á aldur og að Sigríður Rósa muni taka við keflinu en hún er þegar byrjuð að kenna á slíku alþjóðlegu námskeiði í réttartannlæknisfræði. Þau eru sammála um að starfið sé ekki erfitt enda um nákvæm vísindi að ræða. Það sé hins vegar ekki gott þegar reynt er gera lítið úr þessu fræðum og gera þessar greiningar tortryggilegar, sérstaklega þegar viðkomandi titli sig talsmann hælisleitenda.
Öllum fræðimönnum og þeim sem koma að þessum málaflokki ættu að temja sér að fara með rétt mál, byggja málflutning sinn á vönduðum vísindalegum niðurstöðum. „Okkar hlutverk er fyrst og fremst að tryggja að börnum sé tryggð vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist. Hver vill það ekki?“ spyrja þau.