Sögusagnir ganga nú um að óvissa ríki með það hvort börn fái í skóinn í nótt. Íslensku jólasveinarnir, sem staðið hafa að skógjöfum til barna á Íslandi, eru sagðir hafa verið of uppteknir við önnur verkefni á árinu.
„Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið,“ segir Grýla, móðir jólasveinanna og talsmaður. „Það hefur verið talsverð fart á þeim á árinu, en þeir ætla ekki að leggjast í leti í desember eins og Leppalúði pabbi þeirra. Ég er handviss um að þeir munu gefa í skóinn eins og þeir eru vanir að gera. – Ef einhver heldur öðru fram mun ég éta hann eða hana.“
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Fyrir jólin í fyrra ákváðu þeir hins vegar að snúa blaðinu við og hjálpa UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð – svokölluðum sönnum gjöfum. Almenningur gat keypt hjálpargögn á borð við jarðhnetumauk, hlý teppi, bóluefni gegn mænusótt og námsgögn – svo fátt eitt sé nefnt – en jólasveinarnir sáu um að koma þeim til skila.
Jólasveinarnir eru afar ánægðir með átakið og ætla því að starfa aftur með UNICEF fyrir þessi jól. Mbl.is tekur þátt í samstarfinu, hefur fylgst náið með ferðum jólasveinanna og birtir ferðasögu og myndband með sveini dagsins á hverjum degi fram að jólum.
Í starfi sínu fyrir UNICEF hafa jólasveinarnir ferðast um allan heim. Askasleikir og Þvörusleikir þvældust til dæmis til Kenía og Austur-Kongó með næringarmjólk og ormalyf, Stúfur fór alla leið til Norður-Kóreu með námsgögn og Gáttaþefur fór til Kúbu með moskítónet, en sumir þeirra komu við í allt að þrjátíu löndum. Hjálparstarf UNICEF náði til allra heimsálfa nema Suðurskautslandsins, enda markmiðið að ná til allra barna.
Sveinarnir ætla þó ekki að hvíla sig í desember og munu gefa börnum á Íslandi í skóinn fyrir jólin, rétt eins og þeir eru vanir að gera.
Sannar gjafir UNICEF eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn. Fólk kaupir gjafirnar í nafni þess sem það langar að gleðja og gefur viðkomandi gjafabréfið. UNICEF sér hins vegar til þess að gjafirnar sjálfar berist til barna og fjölskyldna þeirra þar sem þörfin er mest.
Sannar gjafir eru sérstaklega vinsælar um jólin. Þær eru einnig oft notaðar sem merkimiðar á jólagjafir og sem jólakveðja til vina og vandamanna erlendis.
Lindex á Íslandi er styrktaraðili jólaátaks UNICEF á Íslandi fyrir sannar gjafir og fjármagnar kynningarefnið, en það er unnið af auglýsingastofunni Jónsson og Le´macks. Teikningarnar eru eftir Brian Pilkington.