Óvíst hvort börn fái í skóinn

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Fyrir jólin …
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Fyrir jólin í fyrra ákváðu þeir hins vegar að snúa blaðinu við og hjálpa UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð – svokölluðum sönnum gjöfum. Teikning/Brian Pilkington

Sögusagnir ganga nú um að óvissa ríki með það hvort börn fái í skóinn í nótt. Íslensku jólasveinarnir, sem staðið hafa að skógjöfum til barna á Íslandi, eru sagðir hafa verið of uppteknir við önnur verkefni á árinu.

„Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið,“ segir Grýla, móðir jólasveinanna og talsmaður. „Það hefur verið talsverð fart á þeim á árinu, en þeir ætla ekki að leggjast í leti í desember eins og Leppalúði pabbi þeirra. Ég er handviss um að þeir munu gefa í skóinn eins og þeir eru vanir að gera. – Ef einhver heldur öðru fram mun ég éta hann eða hana.“ 

Ljósmynd/UNICEF

Hafa breytt áherslum

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Fyrir jólin í fyrra ákváðu þeir hins vegar að snúa blaðinu við og hjálpa UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð – svokölluðum sönnum gjöfum. Almenningur gat keypt hjálpargögn á borð við jarðhnetumauk, hlý teppi, bóluefni gegn mænusótt og námsgögn – svo fátt eitt sé nefnt – en jólasveinarnir sáu um að koma þeim til skila.

Jólasveinarnir eru afar ánægðir með átakið og ætla því að starfa aftur með UNICEF fyrir þessi jól. Mbl.is tekur þátt í samstarfinu, hefur fylgst náið með ferðum jólasveinanna og birtir ferðasögu og myndband með sveini dagsins á hverjum degi fram að jólum. 

Ljósmynd/UNICEF

Fóru í allar heimsálfur nema Suðurskautslandið

Í starfi sínu fyrir UNICEF hafa jólasveinarnir ferðast um allan heim. Askasleikir og Þvörusleikir þvældust til dæmis til Kenía og Austur-Kongó með næringarmjólk og ormalyf, Stúfur fór alla leið til Norður-Kóreu með námsgögn og Gáttaþefur fór til Kúbu með moskítónet, en sumir þeirra komu við í allt að þrjátíu löndum. Hjálparstarf UNICEF náði til allra heimsálfa nema Suðurskautslandsins, enda markmiðið að ná til allra barna.

Sveinarnir ætla þó ekki að hvíla sig í desember og munu gefa börnum á Íslandi í skóinn fyrir jólin, rétt eins og þeir eru vanir að gera.

Ljósmynd/UNICEF

Hvað eru Sann­ar gjaf­ir?

Sann­ar gjaf­ir UNICEF eru lífs­nauðsyn­leg hjálp­ar­gögn fyr­ir bág­stödd börn. Fólk kaupir gjafirnar í nafni þess sem það langar að gleðja og gefur viðkomandi gjafabréfið. UNICEF sér hins vegar til þess að gjafirnar sjálfar ber­ist til barna og fjöl­skyldna þeirra þar sem þörf­in er mest.

Sann­ar gjaf­ir eru sér­stak­lega vin­sæl­ar um jól­in. Þær eru einnig oft notaðar sem merkimiðar á jóla­gjaf­ir og sem jóla­kveðja til vina og vanda­manna er­lend­is.

Lindex á Íslandi er styrktaraðili jólaátaks UNICEF á Íslandi fyrir sannar gjafir og fjármagnar kynningarefnið, en það er unnið af auglýsingastofunni Jónsson og Le´macks. Teikningarnar eru eftir Brian Pilkington.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert