Grunnskólakennarar hafa samþykkt kjarasamning við sveitarfélögin í almennri atkvæðagreiðslu en þeir höfðu áður fellt tvo samninga sem samninganefnd þeirra lagði fyrir.
Ekki liggur fyrir hvað þeir kennarar gera sem sagt hafa upp störfum vegna óánægju með starfs- og launakjör. Talið er að einhverjir muni hætta við að hætta en aðrir standi við uppsagnir sínar og hverfi til annarra starfa.
„Það eru blendnar tilfinningar. Maður hefði viljað sjá eitthvað meira og betra,“ segir Hlynur Þór Valsson, kennari við grunnskólann í Sandgerði, í umfjöllun um samningana í Morgunblaðinu í dag. Hann sagði að samningurinn væri aðeins til eins árs og að hægt væri að fara í hörku eftir eitt ár.