Vegagerðin varar við slitlagsblæðingum á milli Egilsstaða og Norðfjarðar. Mikilvægt er að draga úr hraða þegar bílar mætast og skoða vel dekkin áður en farið er í lengri ferðir og hreinsa þau ef vart verður við tjöru.
Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Suðurlandi, þó er hringvegurinn auður. Það er mikið autt við innanverðan Faxaflóa en annars er víða nokkur hálka á Vesturlandi.
Á Vestfjörðum eru hálkublettir eða hálka nokkuð víða, einkum á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Snjóþekja er á köflum á Ströndum.
Hálka er víða á Norðurlandi vestra og austur yfir Öxnadalsheiði en að miklu leyti er autt við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum. Hálka er á Mývatnsöræfum og Dettifossvegi en hálkublettir á Möðrudalsöræfum.
Á Austur- og Suðausturlandi eru vegir að mestu greiðfærir þótt finna megi hálkubletti á fáeinum vegum.