Hæstiréttur birtir hagsmunatengsl

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur ætlar að gera upplýsingar um hagsmunatengsl hæstaréttardómara aðgengileg á heimasíðu dómstólsins frá ársbyrjun 2017. Þær upplýsingar sem verða birtar eru aukastörf dómara, fasteignir í eigu dómara sem ætlaðar eru til annars en eigin nota, eignarhlutar í hvers kyns félögum, allar skuldir dómara sem ekki tengjast öflun fasteigna til eigin nota og aðild að félögum sem ekki starfa með fjárhagslegu markmiði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hæstarétti.

Upplýsingar þessar munu miðast við stöðu í ársbyrjun 2017 og verða þær framvegis uppfærðar jafnskjótt og tilefni er til. Telji aðilar að einstökum dómsmálum sig þurfa að fá tilgreindar upplýsingar um eitthvert áðurgreindra atriða á tilteknu fyrra tímamarki varðandi dómara í málum þeirra geta þeir beint fyrirspurn um það til Hæstaréttar, segir jafnframt í tilkynningunni.

Tilkynningin um þetta kemur í kjölfar umfjöllunar um hagsmunatengsl dómara við Hæstarétt þegar kemur að því að dæma í ákveðnum málum. Meðal annars hefur verið fjallað um hlutabréfaeign nokkurra dómara í íslensku bönkunum fyrir hrun og í peningamarkaðssjóðum sem töpuðu talsverðum fjármunum í hruninu.

Í tilkynningunni segir að ákveðið hafi verið að taka mið af því sem dómurum beri að tilkynna nefnd um dómarastörf samkvæmt lögum um dómstóla. Þá sé jafnframt litið til annars vegar reglna Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings og hins vegar til þess hvernig atriðum sem þessum er hagað á Norðurlöndunum.

Listuð eru upp fyrrnefnd fimm atriði:

  1. Aukastörf hvers og eins dómara ásamt því hvort greiðsla komi fyrir þau og þá úr hendi hvers.
  2. Fasteignir í eigu dómara sem ætlaðar eru til annars en eigin nota fyrir hann og fjölskyldu hans.
  3. Eignarhluta í hvers kyns félögum.
  4. Allar skuldir dómara sem ekki tengjast beinlínis öflun fasteignar til eigin nota.
  5. Aðild dómara að félögum sem ekki starfa með fjárhagslegu markmiði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert