Matvælastofnun hefur takmarkað starfsemi Brúneggja ehf. að Teigi og Silfurhöll með þeim hætti að allur frekari flutningur varphæna í framleiðsluhúsin er bannaður þar til loftgæði hafa verið bætt.
Mælingar stofnunarinnar á ammóníaki hafa sýnt viðvarandi gildi yfir leyfilegu hámarki í húsunum og þar með að úrbætur eru ekki fullnægjandi. Ammóníak (NH3) er ertandi lofttegund sem berst úr fugladriti í andrúmsloftið í framleiðsluhúsum alifugla. Ef fugladrit er ekki fjarlægt og/eða loftræsting er ófullnægjandi eykst styrkur ammoníaks, sem getur valdið fuglunum vanlíðan, segir á vef MAST.
Mælingar Matvælastofnunar á ammóníaki í framleiðsluhúsum Brúneggja að Teigi og Silfurhöll í Mosfellsbæ í október og nóvember sl. sýndu gildi töluvert yfir skilgreindum hámarksgildum í reglugerð um velferð alifugla.
Í kjölfar þvingunaraðgerða til fækkunar fugla hjá Brúneggjum í lok árs 2015 var fyrirtækinu veittur frestur til 1. mars 2016 til að bæta loftgæðin í húsunum. Hús voru hreinsuð og nýir fuglar settir inn í sumar í réttum fjölda undir eftirliti Matvælastofnunar. Þrátt fyrir það mældust gildi of há um haustið og jókst styrkur ammóníaks milli mælinga. Þar með varð ljóst að þrátt fyrir fækkun fugla og úrbætur á húsnæði náðist ekki að tryggja viðunandi loftgæði. Úrbætur eru því ófullnægjandi.
Samhliða takmörkun á starfsemi hefur Matvælastofnun lagt dagsektir á Brúnegg ehf. þar til bætt hefur verið úr loftgæðum á Teigi og Silfurhöll og tryggt að magn ammóníaks fari ekki yfir skilgreind hámarksgildi meðan á varptíma stendur. Útistandandi dagsektir falla niður ef umráðamaður dýra hefur að mati Matvælastofnunar bætt á fullnægjandi hátt úr aðstæðum og aðbúnaði dýra, innan fimm virkra daga frá ákvörðun um dagsektir.