Samtök iðnaðarins mótmæla skipan landbúnaðarráðherra í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga í samræmi við bráðabirgðaákvæði við búvörulög. Þetta segir í fréttatilkynningu frá SI en lögin voru samþykkt á Alþingi í september. Fram kemur að samtökin telji að ákvæði og markmiði bráðabirgðaákvæðisins hafi ekki verið fullnægt með skipaninni og hafa þau sent ráðherra bréf þess efnis.
Þannig er bent á að upphaflega hafi staðið til að sjö aðilar skipuðu fulltrúa í hópinn og að atvinnurekendur hefðu þar jafnt vægi á við aðra. Samkvæmt ákvæðinu hafi landbúnaðarráðherra borið að skipa samráðshópinn ekki síðar en 18. október 2016 og að „tryggja aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019.“
Ráðherrann hafi hins vegar ekki skipað fyrr en 17. nóvember og þegar skipunarbréf hafi birst hafi komið í ljós að búið hafi verið að fjölga fulltrúum úr sjö í tólf. Viðbótarfulltrúar hafi nær allir komið úr röðum bænda. „Þannig hefur vægi atvinnurekenda minnkað verulega og telja samtökin það ekki vera í anda bráðabirgðaákvæðis laganna og ekki í anda þeirra hagsmuna sem eru undir.“ Bent er á að búvörusamningar séu ekki einkamál bænda.
Samtök iðnaðarins geri fyrir vikið kröfu um að varamaður fulltrúa atvinnurekenda í samráðshópnum verði gerður að fullgildum fulltrúa í starfi hópsins þannig að margþættir hagsmunir atvinnurekenda heyrist.