„Menningin í Norður-Kóreu er býsna ólík þeirri íslensku,“ segir Stúfur. „En eitt eigum við þó sameiginlegt: Áhuga á góðum harmónikkuleik! Það kom mér skemmtilega á óvart að harmónikkan er vinsælasta hljóðfærið þar eystra. Það er nefnilega mitt uppáhaldshljóðfæri.“
Hann segir að sér hafi þó fundist hann ekki jafnfrjáls og heima á Íslandi. „Það eru engin böll í Norður-Kóreu, hvorki harmónikkuböll né jólaböll. Ég gat aldrei sleppt af mér beislinu og verið ég sjálfur. Manni hættir til að gleyma hvað maður hefur það gott að búa á Íslandi.“
Menntun er eitt öflugasta vopnið gegn fátækt og hungri og því er hægt að kaupa námsgögn á sannargjafir.is sem hjálpa börnum víða um heim að æfa sig í að skrifa, teikna og reikna.
Stúfur afhenti stílabækur í ýmsum löndum frá Íslendingum sem gáfu námsgögn sem sannar gjafir fyrir jólin í fyrra, til dæmis Benín, Tsjad, Síle, Austur-Kongó, Króatíu, Kúbu, Kirgistan, Sádi-Arabíu, Suður-Afríku og Norður-Kóreu.
Fólk er hvatt til að hjálpa Stúfi að útvega enn fleiri námsgögn í ár – með því að gefa sanna gjöf hjá UNICEF. Það er líka aldrei að vita nema einhverjir krakkar fái sannar gjafir í skóinn sinn.
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur keypt gjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is.
Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum.
Stúfur hlakkar til að hitta hressa krakka í aðdraganda jólanna. Hann minnir á að hann verði á stjái um allt land og að nikkan sé sjaldnast langt undan. „Ef ég verð beðinn um að þenja nikkuna þegar ég er búinn að gefa í skóna mun ég ekki skorast undan,“ segir hann glaðbeittur.