Vildu frávísun í máli systranna

Malín Brand og Hlín Einarsdóttir
Malín Brand og Hlín Einarsdóttir mbl.is/Eggert

Verjendur Hlínar Einarsdóttur og Malínar Brand kröfðust þess í dag að fallið yrði frá þeim hluta ákæru gegn þeim sem tengist fjárkúgun vegna meintrar nauðgunar. Verjandi Hlínar fór fram á frávísunina og féll verjandi Malínar frá greinargerðaskilum sínum í samráði við hinn verjandann vegna þessa.

Fyrirtaka í fjárkúgunarmálum systranna fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en meðal annars átti að kveða upp hvort dómshald yrði lokað eða opið. Hafði verjandi Hlínar farið fram á lokað dómshald vegna þess ákæruliðar sem snýr að meintri nauðgun. Vegna frávísunarkröfunnar var aftur á móti ákveðið að bíða með úrskurð um lokað dómshald þangað til í lok janúar.

Ástæða frávísunarkröfunnar samkvæmt verjendum málsins er vanreifuð verknaðarlýsing í ákærunni.

Í fyrirtökunni var einnig farið yfir væntanlegan vitnalista í málinu og var niðurstaðan að líklega muni 5-6 vitni mæta fyrir dóminn. Ekki eru líkur á að óskað verði eftir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, verði fenginn fyrir dóminn til að bera vitni, en seinni tveir ákæruliðir málsins snúa að fjárkúgunartilraun gegn honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert