„Ég sá Snakes on a Plane í bíó fyrir mörgum árum og hef verið logandi hræddur við slöngur síðan. Þetta er eiginlega fóbía,“ segir jólasveinninn Þvörusleikir sem er nýkominn heim úr langri ferð á vegum UNICEF á Íslandi. Þvörusleikir tók að sér að dreifa 2,5 milljón töflum af ormalyfi sem Íslendingar gáfu fyrir síðustu jól sem sannar gjafir. Hann segir að það gleðji sig að geta hjálpað til.
„Mér leist hins vegar ekkert á blikuna þegar ég heyrði hvert við værum að fara,“ segir Þvörusleikir, en ferðalagið hófst í Austur-Kongó.
„Það lifa fjölmargar stórhættulegar snákategundir í Afríku, t.d. svarta mamban sem er baneitruð. Ég spurði flugfreyju í vélinni hvort það væru nokkuð snákar um borð. Hún lofaði að svo væri ekki.“
Þvörusleikir segist fljótt hafa áttað sig á að ekki þyrfti að óttast snáka. „Snákar forðast fólk. Það gera ormar og önnur sníkjudýr í meltingarvegi hins vegar ekki, þau eru í raun miklu hættulegri.“
Hann bendir á þá staðreynd að árlega látist ríflega 150.000 börn í heiminum af völdum vannæringar vegna sníkjudýra í meltingarvegi. Sannar gjafir frá Íslendingum komi því að góðum notum.
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur keypt gjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is.
Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.