348 milljóna mistök í frumvarpinu

Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi í gær.
Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjárheimild Barnaverndarstofu verður hækkuð um 348,5 milljónir króna, verði frumvarp til fjáraukalaga samþykkt óbreytt á Alþingi, en það var lagt fyrir þingið í gær. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir hins vegar að um mistök sé að ræða.

Í samtali við mbl.is segir Bragi að fjárveitingin eigi ekki að renna til Barnaverndarstofu, en í frumvarpinu er hún sögð eiga að mæta kostnaði við öryggisvistun einstaklinga sem eru hættulegir umhverfi sínu.

„Fram til þessa höfum við annast þessa einstaklinga, þegar þeir eru yngri en 18 ára,“ segir Bragi. Um sé að ræða sakhæf börn, það er á bilinu 15 til 18 ára, sem hafi gerst brotleg og hlotið dóma.

„Við höfum leyst það með því að byggja sérstök úrræði í kringum þau. En nú er raunin sú, ef ég skil málið rétt, að þetta verði fært undir skrifstofu í ráðuneytinu sem muni eftirleiðis sjá um þessa einstaklinga, og sömuleiðis þá sem eldri eru.“

Með því náist líklega viss hagræðing. Þá segir hann að búið sé að gera ráðuneytinu viðvart og að þessi liður frumvarpsins verði lagaður.

Sérstök öryggisvistun verði reist

Í greinargerð með frumvarpinu segir að sérstakur starfshópur hafi lagt til að þjónusta við þessa einstaklinga, og uppbygging öryggisúrræða, komist á í áföngum á næstu tveimur árum.

Hópurinn hafi jafnframt gert tillögu um að ráðist verði í byggingu sérstakrar öryggisvistunar fyrir sjö einstaklinga á sama tímabili.

Kostnaður við félagsþjónustu við þá einstaklinga sem eru 15 ára og eldri er sagður skiptast á lögheimilissveitarfélag viðkomandi einstaklings, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og á ríkið, þar sem um er að ræða sérstakt framlag vegna öryggisgæslu og/eða öryggisvistunar.

„Umbeðin fjárhæð skiptist þannig að 298,5 m.kr. eru vegna hlutdeildar ríkissjóðs í kostnaði vegna þjónustu og 50 m.kr. vegna stofnkostnaðar sérútbúinna úrræða,“ segir í greinargerðinni.

Uppfært 16.22:

Í svari velferðarráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is segir að rétt sé að umrædd úrræði muni ekki heyra undir Barnaverndarstofu. Því verði viðeigandi breyting gerð á fjárlagafrumvarpinu, við aðra umræðu á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert