Það getur verið vandi að finna jólagjöf sem er bæði frumleg og gagnleg. Hvern hefði grunað að vatn væri sniðug jólagjöf? Jólasveinninn Pottaskefill er löngu búinn að kveikja á þessu og hefur í samstarfi við UNICEF á Íslandi tekið að sér að safna fyrir vatnshreinsitöflum og flytja þær út um allan heim.
„Á Íslandi búum við svo vel að eiga nóg af hreinu vatni,“ segir Pottaskefill sem er nýkominn aftur hingað til lands eftir langa og stranga ferð um Asíu, Afríku, Kyrrahafið og Evrópu fyrir UNICEF.
„Því miður er erfitt að flytja þetta vatn til þeirra sem hafa ekki jafngóðan aðgang að vatni og við. Þess vegna höfum við verið að gefa krökkum bráðsniðugar vatnshreinsitöflur í skóinn. Þær geta breytt skítugu vatni í drykkjarhæft alveg kviss-búmm-bang – það eru eins og galdrar!“
Pottaskefill segist hafa komið á marga eftirminnilega staði á ferðalagi sínu, enda víða þörf á hreinu vatni. „Eins og í Bangladess til dæmis; ég hefði frekar haldið að það væri of mikið af vatni þar. Þaðan heyrir maður einna helst fréttir af flóðum og svoleiðis. En það er ekki sama vatn og hreint vatn. Þegar fljótið Ganges kemur út í Bengal-flóa er það búið að renna niður úr Himalaya-fjöllum, gegnum Indland, fram hjá mörgum borgum og bæjum.“
Pottaskefill hefur einnig komið við í Sýrlandi á árinu en þar er ástandið skelfilegt. „Í Aleppo og á fleiri stöðum hefur fólk neyðst til að drekka mengað vatn. Það er skaðvaldur sem veikir börn og getur dregið þau til dauða. Þessu getum við spornað við með því að gefa þeim vatnshreinsitöflur. Pakki með 5.000 töflum býr til 25.000 lítra af drykkjarhæfu vatni.“
Í fyrra safnaði Pottaskefill 500.000 vatnshreinsitöflum, en með þeim var hægt að hreinsa 2,5 milljónir lítra af vatni. Þessi árangur kom raunar nokkuð á óvart því Pottaskefill hafði þá nýlega verið valinn óvinsælasti jólasveinninn í könnun Gallup. Pottaskefill segist ekki láta slíkt á sig fá, enda hafi hann mörg hundruð ára reynslu af jólasveinastarfinu og viti vel að það geti skipst á með skini og skúrum.
„Ég er eins og pólitíkusarnir; ég tek ekki mark á skoðanakönnunum nema ég komi vel út úr þeim,“ segir hann.
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur hjálpað jólasveinunum með því að kaupa jólagjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is.
Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.