Hlutu styrk til doktorsrannsókna

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir og Guðrún Jónsdóttir ásamt stofnanda sjóðsins, Ingibjörgu …
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir og Guðrún Jónsdóttir ásamt stofnanda sjóðsins, Ingibjörgu R. Magnúsdóttur, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn

Hjúkrunarfræðingarnir Jóna Ingibjörg Jónsdóttir og Guðrún Jónsdóttir hlutu styrk úr Rannsóknarsjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur til doktorsrannsókna í hjúkrunarfræði. Í rannsóknunum eru annars vegar skoðuð áhrif meðferðarsamræðna tengdra krabbameini og kynlífi og hins vegar ákvarðanir um lífslokameðferð sjúklinga á bráðalegudeildum. Heildarupphæð styrkjanna nemur 700.000 krónum.

Doktorsrannsókn Jónu Ingibjargar hefur það markmið að þróa meðferðarsamræður við konur með krabbamein og maka þeirra og skoða áhrif samræðna á aðlögun tengda kynlífi og nánd. Væntingar eru um að niðurstöður rannsóknarinnar bæti þekkingu innan hjúkrunarfræði á endurhæfingu og bata með tilliti til kynlífs hjá konum með krabbamein og mökum þeirra. Markmið doktorsrannsóknar Guðrúnar er að lýsa ákvörðunum um lífslokameðferð á bráðalegudeildum Landspítalans og efla skilning á ferli ákvörðunarinnar og yfirfærslu sjúklinga frá fullri meðferð yfir í lífslokameðferð. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Þetta í níunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en hann var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2007. Sjóðurinn eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert