Askar úr fílabeini bannaðir

Askasleikir hefur ekki farið úr lopapeysunni sinni í 432 ár, …
Askasleikir hefur ekki farið úr lopapeysunni sinni í 432 ár, enda engin þörf á því. Teikning/Brian Pilkington

 

Safarí-ferðir eru vinsælar meðal ferðamanna víða í Afríku. Það er aftur á móti ekki algengt að safarí-farar séu klæddir íslenskri lopapeysu. Þetta var engu að síður raunin þegar jólasveinninn Askasleikir brá sér í safarí á dögunum, en hann var á ferðalagi um Kenía.

„Ég hef ekki farið úr lopapeysunni minni í 432 ár enda engin ástæða til – þetta er afbragðsflík sem móðir mín prjónaði. Um jólin fer ég stundum í rauða hempu yfir hana, en það er algjör óþarfi að fara úr henni. Í þessari ferð fór ég til hátt í 20 landa í Afríku og var aldrei peysulaus, sama hversu heitt varð.“ 

Ljósmynd/UNICEF

Eins og nokkrir tugir katta bundnir saman

Ferð Askasleikis til Kenía var á vegum UNICEF á Íslandi og fólst í að dreifa næringarmjólk sem Íslendingar keyptu sem svokallaðar sannar gjafir fyrir síðustu jól handa vannærðum börnum um allan heim.

En hvernig líkaði honum í safarí?

„Ég er nú vanur skepnum heima á Íslandi. Bæði jólakettinum og svo þurfti ég stundum að eiga við hunda og ketti á bæjum í gamla daga; ég var stundum að laumast í aska sem fólk hafði lagt fyrir dýrin. Þá þurfti maður að kunna á þeim lagið. En þessi kvikindi þarna í Kenía eru allt öðruvísi.“

Hvernig þá?
„Ljón eru eins og risastórir kettir, eða nokkrir tugir katta sem hafa verið bundnir saman í einn bagga. Flóðhestar eru vatnahestar sem eru á st
ærð við hundrað eða tvö hundruð ketti hver, eða tíu kindur, nema þeir eru hvorki með feld né ull. Stórundarlegt.“

Ljósmynd/UNICEF

Misboðið á markaði

Askasleikir segir að sér hafi misboðið verulega þegar honum var boðið að kaupa hluti sem voru skornir út úr fílabeini.

„Ég hafði hugsað mér að kaupa ask sem minjagrip. Það var fátt um fína drætti í þeim efnum, en ég fann snotran hvítan dall með fallegum útskurði. Ég vissi hins vegar ekki hvert ég ætlaði þegar ég komst að því að hann væri úr fílabeini – ég varð svo reiður.“

Askasleikir gerði það eina rétta í stöðunni og tilkynnti yfirvöldum um það sem fram fór á markaðinum, en sala á fílabeini er stranglega bönnuð í Kenía. „Það er sem betur fer verið að reyna að vernda dýr í útrýmingarhættu. Að sjá villta fíla úti í náttúrunni er stórkostlegt, þeir eru svo tignarlegar skepnur – einn fíll er á stærð við þúsund ketti.“

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Askasleikir minnir Íslendinga á að fara á vefsíðuna sannargjafir.isog fjárfesta í næringarmjólk. Hann hafi til dæmis gefið hana í skóinn.

Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.

 

Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert