„Fréttamaður RÚV ruddist inn í hundrað ára afmælisveislu með dónaskap og framgöngu sem ég hef ekki kynnst oft af hálfu fréttamanna.“ Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni.
Tilefni skrifanna er líkast til viðtal sem Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður RÚV, tók við Sigmund í gær. Spurði hún meðal annars hverju það sætti að hann hefði ekki mætt á þingfundi það sem af er þessu þingi, sem endaði með því að hann sagði viðtalinu lokið og gekk í burtu.
Frétt mbl.is: „Voðaleg reiði er þetta í ríkisútvarpinu“
Í pistli sem hann birtir á Facebook-síðu sinni, segir hann að svo virðist sem þráhyggja „SDG-hópsins á RÚV“ sé að ágerast frekar en hitt.
„Tilgangurinn með heimsókn í afmælið virtist eingöngu vera sá að reyna að ýta undir illdeilur í Framsóknarflokknum í tilefni dagsins og búa til frétt um að ég hafi ekki setið nógu mikið í Alþingishúsinu undanfarna daga,“ skrifar Sigmundur.
„Það er reyndar erfitt mál við að eiga því SDG-hópurinn hefur tilhneygingu til að hafa bæði áhyggjur af því hvar ég er og hvar ég er ekki.“
Segir hann þá að þingmenn vinni við fleira en að sitja í þingsalnum.
„Sem betur fer því að jafnaði sitja tveir til þrír menn í salnum. Þingmenn eiga að fylgjast með þingfundum eins og kostur er en einnig að hitta fólk, kynna sér mikilvæg mál, sinna flokknum sínum, kjósendum og öðrum landsmönnum.“
Bendir hann á að á Alþingi hafi verið fjórir þingfundardagar eftir þingsetninguna 6. desember, þar af hafi sá lengsti varað í rúma fjóra klukkutíma.
„Þar af einn dagur eftir að þingmenn Framsóknar fengu skrifstofur. Það hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn, það er ekki hægt að skipa í nefndir nema til bráðabirgða og helsta viðfangsefni þingsins er munaðarlaust fjárlagafrumvarp samið af embættismönnum.
Ríkisútvarpið hefur hins vegar mestar áhyggjur af því að ég hafi ekki setið í þingsalnum þessa fjóra daga. Eftir því sem ég kemst næst er þetta í fyrsta skipti sem stofnunin sér ástæðu til að gera slíka frétt. Þó hef ég séð ótal dæmi um að þingmenn hafi ekki aðeins sleppt því að sitja í þingsal heldur horfið vikum saman án þess þó að vera saknað.“
Segist hann að lokum geta vonandi dregið úr áhyggjum RÚV á Akureyri með því að upplýsa að hann hafi fylgst vel með gangi mála á þinginu „þessa skrýtnu daga en um leið náð að sinna öðrum verkefnu sem falla undir starf þingmanns eins og síðar mun koma í ljós.“