Smáskammtalækningar duga ekki til

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Eggert

Ekki liggur enn fyrir hversu mörgum starfsmönnum Landspítalans verður sagt upp eða á hvaða sviðum til að mæta niðurskurðarkröfu sem forstjóri Landspítalans segir að felist í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Stjórnendur spítalans eiga að skila rekstraráætlun fyrir næsta ár á mánudag.

Í vikulegum pistli sínum á vefsíðu Landspítalans skrifaði Páll Matthíasson forstjóri að gerð væri aðhaldskrafa á spítalann í fjárlagafrumvarpinu upp á 5,3 milljarða króna. Henni yrði ekki mætt öðruvísi en með uppsögnum, lokunum og skerðingu starfseminnar. 

Frétt Mbl.is: Uppsagnir, lokanir og skerðing blasa við

Stjórnendur Landspítalans fengu aðeins tíu daga fyrirvara til þess að undirbúa rekstraráætlun næsta árs vegna þess sem Páll kallar fordæmalausar aðstæður í stjórnmálunum um þessar mundir. Í samtali við Mbl.is segir hann ekki enn liggja fyrir hversu mörgum verði sagt upp eða hvar.

„Við erum enn þá að vinna í því. Þetta er í raun mjög stuttur tími sem við höfum fengið. Við höfum lagt nótt við dag og höldum áfram um helgina og á mánudaginn líka. Þannig að það liggur í sjálfu sér ekki ljóst fyrir fyrr en að því loknu,“ segir Páll.

Forgangsraða í þágu lífsbjargandi meðferðar

Áætlanir spítalans miðast við fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir á Alþingi. Páll segir að allt það fé sem bætt verði í til Landspítalans dragi úr þeim aðgerðum sem grípa þarf til.

„En það gefur augaleið að framkomið fjárlagafrumvarp er í rauninni niðurskurðarkrafa upp á nærri því tíu prósent. Auðvitað verður ekki brugðist við slíku með neinum smáskammtalækningum,“ segir forstjórinn sem telur niðurskurðarkröfuna ekki ríma við þá áherslu sem stjórnmálaflokkarnir lögðu á eflingu heilbrigðiskerfisins í kosningabaráttunni.

Unnið er eftir ákveðinni forgangsröðun, að sögn Páls. Lögð sé mest áhersla á þjónustu sem snýst um lífsbjargandi meðferð og meðferð alvarlegra sjúkdóma og slysa.

„Við reynum náttúrulega að hlífa þjónustu við sjúklinga eins og hægt er en auðvitað verður það ekki hægt,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert