Blaut tuska framan í starfsfólk spítalans

Sjúklingar liggja á kaffistofum og göngum vegna plássleysis.
Sjúklingar liggja á kaffistofum og göngum vegna plássleysis. Facebook/Tómas Guðbjartsson

„Það er skrítin tilfinning að standa erilsama helgarvaktina á Landspítala og ganga stofugang með sjúklinga inni á kaffistofum, göngum og aðstandendaherbergjum. Vegna plássleysis verður að koma rúmum og öðrum tækjum fyrir frammi á gangi þar sem geymslur verður að nýta undir annað.“

mbl.is: Smáskammtalækningar duga ekki til

Þannig hefst pistill sem hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson skrifar á Facebook-síðu sína í dag. Hann gagnrýnir stjórnvöld harðlega og spyr hvort stjórnmálafólk úr öllum flokkum hafi gleymt kosningaloforðum.

mbl.is: Uppsagnir, lokanir og skerðing blasa við

Sjúkrarúm á gangi.
Sjúkrarúm á gangi. Facebook/Tómas Guðbjartsson

Ætti að vera rólegt á sunnudegi

„Ég er búinn að vera heima að vinna í rúm 12 ár síðan ég kom úr sérnámi. Ég hef oft upplifað smá krísur, að það vanti legupláss og það kreppi að, en ég man ekki eftir þessu svona. Það er ekkert sérstakt í gangi núna; engir inflúensufaraldrar, nóróvírus og það hafa ekki verið nein stórslys,“ segir Tómas í samtali við mbl.is og bendir á að ástandið eigi að vera rólegt á spítalanum en samt sé fólk í sjúkrarúmum á göngum spítalans.

Á öllum deildum, nema krabbameinsdeildinni, séu sjúklingar á göngum eða kaffistofum. 

„Það eru sjúklingar inni á herbergjum á deild 10E, sem er krabbameinsdeildin, sem betur fer. Á öllum hinum deildunum eru sjúklingar á gangi eða á kaffistofunum. Uppi á hjartadeild eru fjórir sjúklingar á gangi á sunnudegi. Þetta er sá dagur vikunnar þar sem er minnst að gera á spítalanum. Við erum að sigla inn í jólin og það er lítið af aðgerðum og samt er spítalinn alveg að springa,“ segir Tómas.

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ekki nógu góð þjónusta

Það truflar Tómas mikið að sú þjónusta sem hægt sé að bjóða upp á sé einfaldlega ekki nógu góð fyrir sjúklinga, sem oft sé eldra fólk sem hafi borgað sitt til samfélagsins og eigi allt gott skilið. 

Að þurfa að liggja á gangi og tjá sig um mjög erfið málefni; það er ekki sjálfgefið að gera það á bak við eitthvert færanlegt skilrúm og hafa ekki snyrtiaðstöðu eða rafmagnsbjöllu. Svo er þetta líka gríðarlegt álag fyrir starfsfólk að þurfa að vinna við svona ástand,“ segir Tómas og bætir við að aukinn straumur ferðamanna þýði að fleiri erlendir ferðamenn þurfi að leita á spítalann á næstunni.

Hann segir að samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs vanti tæpa sex milljarða upp á. Spítalinn fái 54 milljarða en vanti 60. 

Þetta eru svo skrítin skilaboð miðað við það sem kom fram hjá öllum flokkum í kosningabaráttunni og umræðunni sem hefur verið í þjóðfélaginu. Mér finnst þetta eins og blaut tuska framan í okkur starfsfólkið hér á Landspítala. Ekki síst þegar stjórnvöld eru sífellt að minna á að hér er góðæri og einhver mesta hagsveifla sem hefur þekkst á Íslandi. Þá spyr maður sig hver eru skilaboðin? Hver er skýringin á því að þetta er svona?“ spyr Tómas.

Sjúklingur les Morgunblaðið í rúmi sínu á ganginum.
Sjúklingur les Morgunblaðið í rúmi sínu á ganginum. Facebook/Tómas Guðbjartsson
Kaffistofur og gangar eru ekki hugsuð sem legupláss.
Kaffistofur og gangar eru ekki hugsuð sem legupláss. Facebook/Tómas Guðbjartsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert