Brann eins og IKEA-geitin

Íslenski jólasveinninn Hurðaskellir tók að sér að koma vatnsdælu til …
Íslenski jólasveinninn Hurðaskellir tók að sér að koma vatnsdælu til Búrkína Fasó. Teikning/Brian Pilkington

 

Í fyrra voru þráðlaus heyrn­ar­tól val­in jóla­gjöf árs­ins á Íslandi. Í litlu þorpi í Búrkína Fasó var jóla­gjöf árs­ins hins veg­ar vatns­dæla sem gef­in var sem svo­kölluð sönn gjöf. Sann­ar gjaf­ir UNICEF eru marg­vís­leg hjálp­ar­gögn af öll­um stærðum og gerðum sem eiga það sam­eig­in­legt að bæta líf barna í neyð.

Heilnæmt drykkjar­vatn er öll­um lífs­nauðsyn­legt og með því að gefa vatnsdælu er hægt að tryggja heilu þorpi drykkjar­vatn. Við það batn­ar ekki síst líf kvenna og barna á staðnum, því oft fell­ur í þeirra hlut að bera vatnið lang­ar leiðir.

Ljós­mynd/​UNICEF

Hurðaskell­ir ekki sátt­ur

Íslenski jóla­sveinn­inn Hurðaskell­ir tók að sér að koma vatnsdælunni til Búrkína Fasó. Þó að vel hafi gengið að koma dælunni fyr­ir var hann ekki alls kost­ar ánægður með ferðalagið.

„Það vita all­ir hvað ég hef gam­an af hurðum,“ seg­ir Hurðaskell­ir svekkt­ur. „Svo send­ir UNICEF mig í þorp þar sem ég sá bara hurðalaus hús gerð úr leir. Það var ein hurð í þorp­inu en mér var bannað að skella henni af því að húsið var svo viðkvæmt. Hverju á ég að skella þá? Ég kunni vel við fólkið í þorp­inu, en þegar búið var að koma dælunni upp hund­leidd­ist mér. Ég hafði ekk­ert að gera.“

En hvað hafði Hurðaskell­ir þá fyr­ir stafni?

„Ég prófaði að leggj­ast í sólbað en það endaði ekki vel. Ég brann eins og IKEA-geit­in. En sem bet­ur fer var dælan kom­in upp og það var hægt að dæla yfir mig vatni þegar mig sveið sem mest. Það var lán í óláni.“ 

Ljós­mynd/​UNICEF

Tanaður í vinn­unni

Vatns­dælur eru meðal gjafa í stærri kant­in­um sem finna má á vefsíðunni sann­ar­gjaf­ir.is. Þar er einnig hægt að fjár­festa í reiðhjól­um og mótor­hjól­um fyr­ir heil­brigðis­starfs­menn, neyðartjaldi fyr­ir fólk á flótta og dóta­kassa fyr­ir börn á átaka­svæðum.

Hurðaskell­ir gaf börn­um á Íslandi í skó­inn í nótt og tóku marg­ir eft­ir því hvað hann var fal­lega tanaður og flott­ur. „Það er það já­kvæða sem maður tek­ur úr þessu. Það og að krakk­arn­ir þarna hafi núna aðgang að drykkjar­vatni. Ég er glaður að vita til þess,“ seg­ir Hurðaskell­ir.

Íslensku jóla­svein­arn­ir eru þekkt­ir fyr­ir stríðni og pretti. Þeir hafa hins veg­ar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálp­ar­gögn­um til barna í neyð. Fólk get­ur keypt gjöf sem bjarg­ar lífi barna á vefsíðunni sann­ar­gjaf­ir.is

Til að leggja lóð sín á vog­ar­skál­arn­ar birt­ir mbl.is mynd­band með jóla­sveini dags­ins á hverj­um degi fram að jól­um og fylg­ist með ferðum svein­anna um heim­inn.

UNICEF, Barna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna, berst fyr­ir rétt­ind­um allra barna og er í ein­stakri stöðu til að þrýsta á um breyt­ing­ar á heimsvísu.

Ljós­mynd/​UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert