Í fyrra voru þráðlaus heyrnartól valin jólagjöf ársins á Íslandi. Í litlu þorpi í Búrkína Fasó var jólagjöf ársins hins vegar vatnsdæla sem gefin var sem svokölluð sönn gjöf. Sannar gjafir UNICEF eru margvísleg hjálpargögn af öllum stærðum og gerðum sem eiga það sameiginlegt að bæta líf barna í neyð.
Heilnæmt drykkjarvatn er öllum lífsnauðsynlegt og með því að gefa vatnsdælu er hægt að tryggja heilu þorpi drykkjarvatn. Við það batnar ekki síst líf kvenna og barna á staðnum, því oft fellur í þeirra hlut að bera vatnið langar leiðir.
Íslenski jólasveinninn Hurðaskellir tók að sér að koma vatnsdælunni til Búrkína Fasó. Þó að vel hafi gengið að koma dælunni fyrir var hann ekki alls kostar ánægður með ferðalagið.
„Það vita allir hvað ég hef gaman af hurðum,“ segir Hurðaskellir svekktur. „Svo sendir UNICEF mig í þorp þar sem ég sá bara hurðalaus hús gerð úr leir. Það var ein hurð í þorpinu en mér var bannað að skella henni af því að húsið var svo viðkvæmt. Hverju á ég að skella þá? Ég kunni vel við fólkið í þorpinu, en þegar búið var að koma dælunni upp hundleiddist mér. Ég hafði ekkert að gera.“
– En hvað hafði Hurðaskellir þá fyrir stafni?
„Ég prófaði að leggjast í sólbað en það endaði ekki vel. Ég brann eins og IKEA-geitin. En sem betur fer var dælan komin upp og það var hægt að dæla yfir mig vatni þegar mig sveið sem mest. Það var lán í óláni.“
Vatnsdælur eru meðal gjafa í stærri kantinum sem finna má á vefsíðunni sannargjafir.is. Þar er einnig hægt að fjárfesta í reiðhjólum og mótorhjólum fyrir heilbrigðisstarfsmenn, neyðartjaldi fyrir fólk á flótta og dótakassa fyrir börn á átakasvæðum.
Hurðaskellir gaf börnum á Íslandi í skóinn í nótt og tóku margir eftir því hvað hann var fallega tanaður og flottur. „Það er það jákvæða sem maður tekur úr þessu. Það og að krakkarnir þarna hafi núna aðgang að drykkjarvatni. Ég er glaður að vita til þess,“ segir Hurðaskellir.
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur keypt gjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is.
Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.