Stjórnarmyndunarviðræður hefðu gengið betur ef Framsóknarflokkurinn hefði verið þátttakandi í þeim. Þetta fullyrti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Að hans mati sé búið að reyna ákveðnar stjórnarmyndunarleiðir til þrautar.
„Ég upplifi þetta svolítið þannig að við séum að einhverju leyti í tómarúmi. Það er búið að reyna til þrautar vil ég halda fram ákveðnar leiðir,“ sagði Sigurður Ingi þegar hann var spurður um stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðunum sem Framsóknarflokkurinn hefur fram að þessu ekki tekið þátt í.
Hann sagðist ekki hafa skýringar á því hvers vegna aðrir flokkar hefðu ekki leitað samstarfs við Framsóknarflokkinn, enginn fulltrúa hinna flokkanna hefði sagt við hann hverju það sætti.
„Ég vil fullyrða að það hefði kannski gengið betur ef við hefðum verið þátttakendur í viðræðunum,“ sagði starfandi forsætisráðherrann.
Sigurður Ingi vildi ekki kannast við að klofningur væri innan Framsóknarflokksins og enginn málefnalegur ágreiningur væri til staðar þegar hann var spurður út í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formann flokksins. Komið hefur fram að þeir talist vart við.
„Ég hef ekki stórar áhyggjur af því. Ég held að það geti annars vegar lagast með einhverjum hætti. Því að Framsóknarflokkurinn standi ekki traustum fótum fyrir það sem hann stendur fyrir og þingflokkurinn bakki það ekki upp hef ég engar áhyggjur af.“
Tók hann þó undir að staðan í flokknum væri að einhverju leyti furðuleg.
„Ég fullyrði það að Framsóknarflokkurinn er algerlega trúverðugur samstarfsflokkur eins og hann er í dag,“ sagði Sigurður Ingi.
Formaður Framsóknarflokksins var jákvæður út í störf þingsins en fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og breytingar til að jafna lífeyrisréttindi hafa verið lagðar fyrir það þrátt fyrir að enn hafi ekki verið mynduð ríkisstjórn. Sagðist Sigurður Ingi vongóður um að hægt yrði að afgreiða málin í vikunni. Það mynda taka tímapressu af stjórnarmyndunarviðræðunum.
Þó að þessi tímarpressa verði tekin af lagði Sigurður Ingi áherslu á að pressan á að mynda ríkisstjórn sem tækist á við þau verkefni sem böstu við værði ekki farin. Þar nefndi hann meðal annars að takast á við afleiðingar sterkara gengis, þar á meðal fyrir ferðaþjónustuna.
„Það þarf allavega ríkisstjórn sem hefur pólitískt vald til að setja slík mála á dagskrá,“ sagði Sigurður Ingi.
Spurður út í óánægju forsvarsmanna heilbrigðis- og menntastofnana sem hafa lýst gríðarlegum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið sagði Sigurður Ingi að verulegrar óþolinmæði gætti hjá mörgum ríkisstofnunum að fá meira fjármagn eftir mögur ár sem á undan væru gengin. Hvatti hann til þolinmæði.
„Núna standa menn frammi fyrir því að við erum á hápunkti hagsveiflunnar. Allir stjórnmálamenn held ég að geri sér grein fyrir því að þeir vilja ekki vera valdir að því að við förum fram af brúninni, að hér verði gengisfall og verðbólga rjúki upp með tilheyrandi hefðbundnum afleiðingum. Það er alltaf vandasamara að stjórna á hápunkti góðæris en í raun og veru á öðrum tímum, það er svo mikil freistni,“ sagði formaður Framsóknarflokksins.
Skilaboðin með fjárlagafrumvarpinu nú væru að ekki yrði allt sett á hliðina með ofþenslu en engu að síður að taka þátt í að tryggja áframhaldandi uppbyggingu innviða. Það sagði Sigurður Ingi vera vandasamt en hann treysti þinginu til að ráða við það verkefni.
„Síðan er það þá nýrrar ríkisstjórnar, hvenær sem hún birtist, kannski að koma fram með efnahagspakka með hugsanlegum viðbótum í innviði, nýja forgangsröðun og þá einhverjar mótvægisaðferðir sem varða þensluna,“ sagði Sigurður Ingi.