Of snemmt að fullyrða um aukin framlög

Stjórnendur og starfsfólk Landspítalans er ósátt við framlög til hans …
Stjórnendur og starfsfólk Landspítalans er ósátt við framlög til hans á fjárlögum næsta árs. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjárlaganefnd Alþingis fer nú yfir breytingartillögur á fjárlagafrumvarpi næsta árs en formaður hennar segir of snemmt að segja til um hvort framlög til heilbrigðismála verði aukin. Forstjóri Landspítalans og einstakir læknar hafa gagnrýnt framlög til spítalans. Formaðurinn segist ekki ræða þá gagnrýni efnislega.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, varar við því að miðað við framlög í fjárlagafrumvarpinu þurfi spítalinn að grípa til uppsagna og skerða þjónustu. Þá lýsti hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson fjárlagafrumvarpinu sem „blautri tusku“ framan í starfsfólk spítalans í færslu á Facebook í gær.

Frétt Mbl.is: Smáskammtalækningar duga ekki til

Í samtali við Mbl.is segir Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að nefndin hafi skoðað heilbrigðismálin sérstaklega í sinni vinnu og hún hafi fundað með stjórnendum spítalans.

„Við erum líka vel meðvituð um stöðu annarra heilbrigðisstofnana allt í kringum landið sem eru líka í þröngri stöðu eins og Landspítalinn,“ segir Haraldur sem vill ekki tjá sig efnislega um gagnrýni Páls og Tómasar.

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/Eggert

Fulltrúar í fjárlaganefnd séu að ræða breytingatillögur við fjárlagafrumvarpið. Þeir hafi verið í samstarfi við velferðarráðuneytið um áherslur. Haraldur segist telja mikilvægt að fylgt verði atriðum sem hafi meðal annars komið fram í McKinsey-skýrslunni um rekstrarhagkvæmi og stöðu Landspítalans.

„Ég vil ekkert segja um það núna. Það er of snemmt að fullyrða um það,“ segir Haraldur spurður að því hvort að með breytingatillögunum verði bætt í fjárveitingar til heilbrigðismála á næsta ári.

Frétt Mbl.is: Blaut tuska framan í starfsfólk spítalans

Haraldur segir að ekki dugi að horfa aðeins á fjármál heilbrigðiskerfisins heldur þurfi einnig að skoða skipulag stofnana. Það verði ekki leyst í þessari lotu breytingatillagna fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp starfsstjórnar.

„Það verða ekki marviss vinnubrögð að gera það þannig. Við klárum aldrei svona framtíðarstefnumörkun nema í breiðara samtali og stefnumörkum. Við ljúkum því ekkert í viðbrögðum við frumvarpi starfsstjórnar,“ segir hann.

Frekar sé tækifæri til að ræða áherslubreytingar í umræðum um fjármálastefnu og áætlun sem kveðið sé á um í nýjum lögum um opinberar fjárreiður sem taka gildi um áramótin.

Fjárlagafrumvarpið barst fjárlaganefnd 7. desember og segir Haraldur að nefndarmenn hafi unnið í því alla daga síðan. Hann segist vongóður um að nefndin afgreiði frumvarpið í vikunni og vísi aftur til Alþingis.

Frétt Mbl.is: Uppsagnir, lokanir og skerðing blasa við

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert