Fundur í kjaradeilu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara var árangurslaus. Ríkissáttasemjari sleit fundi og hefur ekki boðað nýjan. Nýr fundur verður líklega boðaður á nýju ári.
„Staðan er ekki góð. Við finnum lítinn samningsvilja,” segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig frekar um kjaradeiluna.
Ekki er útlit fyrir að boðað verði til nýs fundar í kjaradeilunni fyrr en eftir áramót. Ekki nema eitthvað nýtt komi upp í stöðunni fram að því, ap sögn Bryndísar Hlöðversdóttur, ríkissáttasemjara. Samkvæmt lögum er ríkissáttasemjara skylt að boða nýjan fund innan hálfs mánaðar frá þeim síðasta.