Breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe hefur keypt meirihlutann í Grímsstöðum á fjöllum. Þetta staðfestir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs.
Gísli segir Ratcliffe ekki hafa nein uppbyggingaráform varðandi jörðina og kaupin feli því ekki í sér neinar breytingar fyrir aðra eigendur, en íslenska ríkið er meðal landeiganda Grímsstaða á Fjöllum. Jörðin er þess í stað sögð keypt með það að markmiði að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi.
„Þetta er liður í því að byggja upp þessar ár,“ segir Gísli, en Ratcliffe er hluthafi í Streng sem er með Selá, Hofsá og Hafralandsá á leigu.
„Vatnasvið Selár nær yfir í Grímsstaðalandið og árið 2011 var opnaður laxastigi í Selá sem gerir kleift fyrir lax að ganga upp á þessi svæði. Við vitum ekki hve langt fiskurinn hefur gengið enn þá, en þetta er liður í því að byggja upp laxastofna á þessu svæði og að gera svæði sem voru áður óaðgengileg, aðgengileg,“ segir Gísli.
Spurður hvort Ratcliffe sé mikill stangveiðimaður svarar hann: „Hann hefur mjög gaman af að veiða og hann hefur mjög gaman af uppbyggingu á svona náttúruperlum, eins og árnar eru á þessu svæði.“
Elvar Daði Guðjónsson, sem rekur ferðaþjónustuna Grímstungu á Grímsstöðum og í Hólsseli, staðfestir að hann hafi frétt af kaupunum nú síðdegis og kveðst ekki hafa heyrt betur en að kaupin ættu að hafa lítil áhrif á sinn rekstur.
„Þetta gæti bara orðið gott fyrir mig ef þetta er einhver maður sem vill vel. Ég gat ekki betur heyrt en að það verði allt óbreytt sem snýr að mér,“ sagði hann.
Greint hefur verið frá því áður í fréttum að Ratcliffe hafi keypt þrjár jarðir í Vopnafirði, þar sem gjöfular laxveiðiár er að finna.
Grímsstaðir voru auglýstir til sölu í október og var ásett verð 780 milljónir. Áður hafði kínverski fjárfestirinn Huang Nubo áformaði að kaupa Grímsstaði fyrir rúman milljarð, en ekkert varð úr þeim áformum.