„Náist traust samstarf meðal fólks gerast góðir hlutir. Af eðlislægri bjartsýni tel ég ekki útilokað að fjárlagafrumvarpið verði samþykkt fyrir jól. Málið er nú í umfjöllun nefndar og svo tekur þingið sjálft við,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Stíft var fundað á Alþingi í gær í fjárlagavinnu, þar sem mikið var fjallað um ýmsa útgjaldaliði. Fjárlagavinnuna segir Haraldur vera mjög krefjandi. Nú sé í fyrsta sinn starfað eftir nýjum lögum um opinberar fjárreiður sem taki gildi um áramótin.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi ekki treysta sér til þess að segja til um hvort lj úka mætti þingstörfum fyrir jól. Áfangar væru þó að nást. Efnahags- og viðskiptanefnd hefði þegar lokið umfjöllun um frumvarp til laga um kjararáð. Nefndarálit lægi fyrir og í dag væri að vænta umsagnar nefndarinnar um lífeyrismálin, en mikil áhersla hefur verið lögð á að afgreiða þetta tvennt á haustþinginu. Einnig þyrfti að afgreiða fjáraukalög og bandorm vegna fjárlaga – þ.e. breytingar á ýmsum lögum þeirra vegna.