Samband íslenskra sveitarfélaga hefur áhyggjur af því að erfitt geti reynst að fylgja eftir nýrri reglugerð um heimagistingar sem tekur gildi 1. janúar vegna þess að framkvæmd hennar sé ekki nægilega skýr. Erfitt gæti orðið að taka fasteignaskatt af leigustarfseminni.
„Sveitarfélögin eru ekki alveg nógu ánægð með þetta eins og þetta lítur út,“ segir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Airbnb-íbúðir voru alls 2.551 í Reykjavík í apríl síðastliðnum.
Samkvæmt lagabreytingunum er fólki heimilt að leigja út lögheimili sitt og aðra eign til viðbótar í allt að níutíu daga á ári hverju. Þessar eignir mega þó ekki vera í sama hverfi heldur er með þessu átt við að fólk geti t.d. leigt út sumarhús sitt og lögheimili. Heildarleigutíminn má þó aðeins vera níutíu dagar og gildir það hvort sem um er að ræða leigu einnar eða tveggja eigna.
Hægt verður að sekta þá sem leigja út heimili sitt án skráningar. Sektarfjárhæðin er á bilinu eitt þúsund til ein milljón króna og fer upphæðin eftir alvarleika brotsins.
Frétt mbl.is: Sektað fyrir óskráða Airbnb-íbúð
Að sögn Guðjóns hafa sveitarstjórnarmenn áhyggjur af því að erfitt geti reynt að hafa eftirlit með því hvort menn fara yfir níutíu daga mörkin eða ekki. Samkvæmt lögunum er leigusalinn ekki í atvinnurekstri ef leigan er innan 90 daga en af hann fer umfram það er hann kominn með atvinnuhúsnæði og þar af leiðandi í sérflokki í fasteignasköttum.
„Við erum búnir að vera í samskiptum við ráðuneytið út af reglugerðarútfærslu á þessu máli,“ segir Guðjón og á við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. „Miðað við þau drög sem liggja fyrir sjáum við ekki alveg að það sé augljós lausn á þessu.“
Guðjón telur ákveðna hættu vera á kærumálum vegna þess hversu óljós framkvæmdin er. Eigendur íbúða gætu véfengt ákvarðanir sveitarfélaga um álagningu fasteignaskatts.
Reglugerðin gerir ráð fyrir því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu haldi miðlæga skráð yfir leigusalana og fylgist með gangi mála. Guðjón setur spurningarmerki við það hversu virkt eftirlitið verður og hversu vel muni ganga að skila upplýsingunum til sveitarfélaganna.
„Vonandi tekst að slípa þetta til þannig að þetta virki en það er ekki sannfæring fyrir því.“
Í löndunum í kringum okkur hafa sveitarfélögin gert þær kröfur að skráningar á bókunarsíður verði gerðar aðgengilegar yfirvöldum. „Það gæti verið ákveðin lausn á málinu ef mönnum tækist það hér á landi,“ segir Guðjón. Þannig yrði það skylda viðkomandi eiganda íbúðarhúsnæðis að leggja fram slík gögn.