Leiksýning á Landspítala?

Tómas Guðbjartsson, prófessor og læknir.
Tómas Guðbjartsson, prófessor og læknir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tómas Guðbjartsson, læknir segir að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að stíga fram í fyrradag og lýsa ástandinu eins og það er á Landspítala og heldur engin skyndiákvörðun að birta pistilinn með ljósmyndum á Facebook-síðu sinni.

Frétt mbl.is: Blaut tuska framan í starfsfólkið

„Í gær og í dag les ég í fjölmiðlum að ganga- og biðstofuinnlagnirnar hefðu verið sviðsettar með mig sem leikstjóra. Sem er fráleitt enda geta tugir starfsmanna og aðstandenda staðfest lýsingar mínar. Það er einnig ósatt að ég hafi beitt fyrir mig veikum skjólstæðingum spítalans í því skyni að ná athygli fjölmiðla.

Ég sýndi fréttamanni RÚV aðstæður á öllum fimm legudeildunum við Hringbraut. Áður hafði ég fengið til þess tilskilin leyfi innan spítalans. Að sjúklingar á öðrum deildum hafi síðan stigið fram og viljað tjá sig við fréttamann RÚV var ekki að mínu frumkvæði.

Það geta viðmælendurnir sjálfir, fjölmargir aðstandendur þeirra (sem einnig gáfu samþykki sitt) og starfsfólk viðkomandi deilda staðfest. Starfsmenn Landspítala hafa hingað til, þar með taldir stjórnendur og millistjórnendur, verið tregir til að tjá sig um þá „hjartsláttaróreglu” sem spítalinn á við að etja og hefur ríkt svo mánuðum og árum skiptir, skrifar Tómas á Facebook-síðu sína í morgun.

Hann segir fjárlagafrumvarpið gríðarleg vonbrigði og mun ekki breyta ástandinu á deildum spítalans úr „rauðu”.

„Samkvæmt lögum er landlæknir ábyrgður fyrir því að tryggja öryggi sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi, þar með talið einstaklinga sem hýrast á göngum og kaffistofum Landspítala. Staðhæfing landlæknis í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi kom því á óvart, enda lýsti hann hann ástandinu á Landspítala sem hreint ekki svo slæmu. Einnig kom fram að hann hefði „brugðist skjótt við” og krafið stjórnendur Landspítala um gögn.

Hálftíma síðar staðfesti forstjóri Landspítala í Kastljós-viðtali að beiðni um gögn hefði vissulega borist fyrr um morguninn – en að skýrslan væri ekki tilbúin og því ekki enn verið send frá spítalanum!

Það er vissulega hægt að sjúkdómsgreina hjartsláttaróreglu með því þreifa púls með lokuð augu, en við brýnum fyrir læknanemum að auðveldara sé að komast að réttri greiningu með því að þreifa púlsinn um leið og maður horfir á sjúklinginn og hlustar á kvartanir hans,“ skrifar Tómas í færslu á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert