Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að fundur sjómannaforystunnar og SFS sem er nýlokið, hafi gengið ágætlega.
„Báðar hliðar reifuðu sín sjónarmið og það fóru fram umræður um afstöðu baklandsins. Það var ákveðið að báðir aðilar myndu vinna sitt í hvoru lagi að mögulegri lausn á deilunni og hittast formlega aftur á fundi eftir áramót hjá ríkissáttasemjara,“ segir Heiðrún Lind.
Sá fundur er verður haldinn 5. janúar.
Frétt mbl.is: Fundur í kjaradeilu sjómanna hafinn
Heiðrún Lind segir að því sé ekki að leyna að staðan sé alvarleg. „Ég held að báðir aðilar átti sig á því að staðan er snúin og lausn er í það minnsta ekki í sjónmáli. Við höfum sagt að það sé mikið í húfi og að markaðir geti tapast. Útflutningsverðmæti geta numið um 5 milljörðum í hverri viku sem myndu tapast. Ef verkfall dregst á langinn geta þetta orðið stórar fjárhæðir,“ segir hún.
„Síðan er grátlegt að þetta bitnar á starfsmönnum fyrirtækjanna sem eru í fiskvinnslu. Þeir fara þá á atvinnuleysisskrá. Ef ekki í vikunni, þá fljótlega.“