Öryrkjabandalag Íslands hefur ýmsar tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpinu 2017 og vill m.a. til að fjármagni verði veitt til að innleiða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslensk lög og tryggja lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
Þá vill bandalagið að útgjöld til heilbrigðismála verði stóraukin og unnið að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.
Helstu tillögur ÖBÍ um breytingar á fjárlagafrumvarpi:
- 11% af vergri landsframleiðslu verði varið í félagslegt heilbrigðiskerfi. Þá verði heilbrigðisþjónusta á Íslandi gerð gjaldfrjáls í áföngum. Þá verði sú heilbrigðisþjónusta, sem lög um greiðsluþátttöku taka til, gjaldfrjáls.
- Öldruðum og örorkulífeyrisþegum verði tryggð full endurgreiðsla á tannlækningum og fjármagn tryggt til að fella tannlækningar undir greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu.
- Virðisaukaskattur af lyfjum verði afnuminn.
- Virðisaukaskattur af hjálpartækjum fyrir fatlað fólk og aldraða verði afnuminn.
- Sjúkratryggingum Íslands verði tryggt fjármagn svo fólk geti látið gera við hjálpartæki hvenær sem er sólarhringsins og um allt land.
- Bótaflokkar almannatrygginga hækki um 32,2% þannig að óskertur lífeyrir almannatrygginga verði sama upphæð og lágmarkslaun á árinu 2017, eða kr. 280.000 á mánuði. Sérstök framfærsluuppbót, sem skerðist krónu á móti krónu við skattskyldar tekjur, hækki minna eða um 7,5%, til að draga úr vægi hennar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 7,5% hækkun en til samanburðar má nefna að hækkun þingfararkaups á árinu 2016 er rúmlega 70% hærri upphæð en óskertur lífeyrir almannatrygginga eftir fyrirhugaða hækkun hans.
- Sérstök framfærsluuppbót verði felld inn í tekjutryggingu í tveimur áföngum.
- Verði það áfram stefna stjórnvalda að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats er lagt til að farin verði sú leið sem útlistuð er í skýrslu ÖBÍ Virkt samfélag: Tillögur ÖBÍ að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess. ( http://www.obi.is/static/files/skjol/pdf-skyrslur/skyrsla-virkt-samfelag-2016.pdf
- Alþingi samþykki án tafar lagalegan rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Bætt verði við 300 milljónum í fjárlög til þess að hægt sé að tryggja það.
- Auknum fjármunum verði varið til menntunar fatlaðra barna og ungmenna og einnig barna og ungmenna með sérþarfir til að þau fái sömu tækifæri til menntunar og aðrir.
- Unnið verði með markvissum hætti að innleiðingu og lögfestingu SRFF – ráðnir verði 3 sérfræðingar til innanríkisráðuneytisins til að vinna greiningu á dómum, álitum, skýrslum og framkvæmd annarra ríkja í tengslum við samninginn.
- Fjármagn verði lagt til fullgildingar á valfrjálsri bókun við SRFF – ekki kom fram í fjárlögum hvaða fjárútlát fylgi nauðsynlegri vinnu til fullgildingar bókunarinnar.
- Sérstök greining fari fram á aðgengismálum á öllum stofnunum ríkisvaldsins sem byggt verði á mati á hvort grípa þurfi til sérstakra ráðstafana í ljósi fullgildingar SRFF. Fé verði veitt til að tryggja aðgengi fyrir fatlað fólk að Bessastöðum og Stjórnarráðinu. Þá verði útgáfa efnis dómstóla endurskoðuð með hliðsjón af fullgildingu SRFF.
- Gerð verði raunhæf kostnaðaráætlun samfara samþykktri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þannig að verkefni hennar séu fjármögnuð með skynsamlegum hætti.