Fimmti ríkasti maður Bretlands

Jim Ratcliffe, nýr eigandi Grímsstaða á Fjöllum.
Jim Ratcliffe, nýr eigandi Grímsstaða á Fjöllum.

Jörðin Grímsstaðir á Fjöllum hefur verið seld breskum auðmanni, Jim Ratcliffe. Honum hefur verið lýst sem feimnum við fjölmiðla og þykir ekki framfærinn í kastljós bresku pressunnar. En hver er hann?

Ratcliffe er 64 ára, fæddur árið 1952, og fimmti ríkasti maður Bretlands, samkvæmt lista Forbes fyrir árið 2016. Þá er hann í 233. sæti listans á heimsvísu. Eru auðæfi hans metin á 6,9 bandaríkjadali, eða sem nemur tæpum 800 milljörðum íslenskra króna.

Hann útskrifaðist sem verkfræðingur frá Birmingham-háskóla, og er stofnandi og forstjóri efnavinnslufyrirtækisins Ineos, sem er með 17 þúsund starfsmenn á 67 stöðum í 16 löndum, með höfuðstöðvar í Sviss.

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum. Ljósmynd/Bragi Benediktsson

Verði stærsti framleiðandi leirsteinsgass

Í umfjöllun Forbes segir að Ratcliffe hafi tilkynnt árið 2014 áætlanir um að fyrirtæki hans yrði stærsti framleiðandi leinsteirsgass í Bretlandi, en til að ná því úr jörðu þarf að beita svokölluðu vökva- eða bergbroti (e. fracking).

Slík vinnsla hefur valdið deilum víða, einkum í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem hún þykir hættuleg heilsu manna auk þess sem hún hefur sums staðar valdið jarðskjálftum í nágrenni sínu.

Frétt mbl.is: Bergbrot eins hættulegt og asbest

Ratcliffe er einnig sagður ævintýragjarn. Þannig hafi hann bæði farið á Norður- og suðurpólinn, og mánaðarlangt ferðalag um Suður-Afríku á mótorhjóli árið 2015.

Þá hefur hann stofnað alþjóðlega átakið Go Run for Fun, sem er ætlað að hvetja börn til að hreyfa sig.

Ef smellt er á kortið má þysja það að vild.
Ef smellt er á kortið má þysja það að vild. Kort/map.is

Vill endurvekja Land Rover Defender

Þó kominn sé vel á sjötugsaldur er ljóst að Ratcliffe hefur nóg fyrir stafni. Rúmt ár er síðan hann keypti olíu- og gaslindir í Norðursjó, sem saman sjá einu af hverjum tíu breskum heimilum fyrir hita.

Þá birtust fréttir af því fyrr á þessu ári að hann hygðist vekja Land Rover Defender jeppann aftur til lífsins, aðeins sex mánuðum eftir að síðasta eintakið rúllaði af færibandinu.

Frétt mbl.is: Síðasti Defenderinn af færibandinu

Er Ratcliffe sagður hafa átt í samræðum við helstu stjórnendur fyrirtækisins Jaguar Land Rover, sem er í eigu indverska félagsins Tata Motors. Þá vilji hann að framleiðsla jeppans fari fram á breskri grundu.

Og nú er hann búinn að leggja land undir fót á austurhluta Íslands, en til viðbótar við Grímsstaði á Fjöllum hefur hann þegar á þessu ári keypt þrjár jarðir í Vopnafirði. Á hann þar með að hluta eða í heild ell­efu jarðir í Vopnafirði, en eign­ar­hlut í ein­hverj­um þeirra á hann í gegn­um Veiðiklúbb­inn Streng ehf.

Sjá ítarlega umfjöllun mbl.is: Ratcliffe fékk en Nubo ekki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert