Birgitta fór til Moskvu og hitti Snowden

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, fór nýlega í stutta ferð til Moskvu til þess meðal annars að hitta uppljóstrarann Edward Snowden. Þó hann vilji helst fara til Bandaríkjanna gegn loforði um að hann fái réttlát réttarhöld, þá segir Birgitta að Snowden sé tilbúinn að koma til Íslands. Þetta var haft eftir henni í Speglinum í kvöld.

Snowden sótti um ríkisborgararétt hér á landi og í fleiri löndum eftir að hann lak miklu magni leyniskjala árið 2013. Flúði hann til Hong Kong í Kína og þaðan síðar til Moskvu í Rússlandi þar sem hann hefur haldið til síðan.

Sagði Birgitta að staða Snowden í Rússlandi núna væri ekki eins örugg og áður og ekki sé vitað hvað taki við þegar Donald Trump setjist á forsetastól.

Píratar lögðu árið 2013 fram frumvarp ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, Bjartri framtíð og Vinstri grænum um að Snowden fengi ríkisborgararétt hér á landi. Ekkert varð úr því.

Edward Snowden er búsettur í Rússlandi en dvalarleyfi hans rennur …
Edward Snowden er búsettur í Rússlandi en dvalarleyfi hans rennur út á næsta ári. AFP

Þegar Birgitta var spurð hvort það væru ekki bara draumórar í henni að Snowden fengi ríkisborgararétt hér miðað við pólitískt landslag sagði hún að hún væri ekki að kalla eftir þessu fyrir áramót. Aftur á móti teldi hún að hefja ætti þessa samræðu. „Ég skammast mín ekki fyrir að vera með stóra draum,“ sagði Birgitta og vísaði til máls Bobby Fisher og að hann hafi fengið hér ríkisborgararétt þegar hann þurfti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert