UNICEF tók þátt í umfangsmiklu bólusetningarátaki í Nígeríu á dögunum. Bólusett var gegn mænusótt en unnið er að því að útrýma þessum skæða sjúkdómi á heimsvísu. Á Íslandi fór fram vel heppnuð neyðarsöfnun og var jólasveinninn Gluggagægir fenginn til að flytja bóluefni til Nígeríu.
„Ég var að fara þarna út með sjúkrakassa sem hægt er að kaupa á sannargjafir.is,“ segir Gluggagægir. „Mig munaði ekkert um að kippa bóluefninu með í leiðinni.“
Gluggagægir sat heldur betur ekki auðum höndum í Nígeríu og lét sig ekki muna um að leika í svokallaðri „Nollywood-mynd.“ Kvikmyndaiðnaður í Nígeríu er geysilega öflugur og er hann stundum kallaður Nollywood, en í landinu eru framleiddar fleiri myndir en í draumaverksmiðjunni Hollywood.
„Það kom einhver leikstjóri að máli við mig og réð mig í mynd sem hann var að gera. Honum fannst ég smellpassa í eitt hlutverkið,“ segir Gluggagægir.
– En um hvað er myndin?
„Myndin fjallar um ástarþríhyrning. Gifta konu sem verður ástfangin af síðskeggjuðum Evrópumanni sem er 900 ára gamall. Ég er þá að leika aðeins upp fyrir mig í aldri, en að öðru leyti hentaði hlutverkið mér nokkuð vel.“
– En gæti Gluggagægir hugsað sér að leika í fleiri myndum í Nollywood?
„Ég er alla vega til í að halda þeim glugga opnum,“ segir hann kíminn.
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur keypt gjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is.
Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.