„Frumvarpið var afgreitt úr fjárlaganefnd með stuðningi allra flokka sem þýðir að í atkvæðagreiðslunni styðja þingmenn það eftir atvikum eða sitja hjá,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, en fjárlagafrumvarpið var afgreitt úr nefndinni í dag til annarrar umræðu.
Haraldur segir aðspurður að fjárlaganefnd leggi til viðbótarútgjöld upp á um 12 milljarða króna. Þannig verði 4,6 milljörðum króna varið til samgöngumála til viðbótar við það sem áður var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þar inni í eru Dýrafjarðargöng en fyrst og fremst er þó lögð áhersla á viðhaldsverkefni víða um land. Helmingurinn fer til viðhaldsmála.
Lagt er til að hálfur milljarður farið til viðbótar til löggæslumála og 1,7 milljarður í menntamál. Þar af 1,3 í háskólastigið og 400 milljónir í framhaldsskólana. Þá er lagt til að 100 milljónir króna að auki fari til Landhelgisgæslunnar og 75 milljónir á fjáraukalögum.
Ennfremur að rúmlega 5,2 milljarður fari í heilbrigðismálin til viðbótar. Þar er áherslan að sögn Haraldar að bæta rekstrarstöðu heilbrigðisstofnana um allt land, átak í biðlistum og aðgerðir til þess að létta á fráflæðivanda Landspítalans og rekstur og uppbyggingu hjúkrunarheimila.
Haraldur segir að á móti komi meðal annars ýmsar vantaldar tekjur þannig að þrátt fyrir útgjaldaaukningu upp á um 12 milljarða verði eftir sem áður afgangur af rekstri ríkissjóðs upp á 24 milljarða króna. Hann segir rétt að halda því til haga að gríðarleg útgjaldaaukning hafi verið í fjárlagafrumvarpinu áður en til þessara breytinga hafi komið.
Haraldur segir að sú sátt sem skapast hafi í fjárlaganefnd sé í rauninni mjög merkilegt. „Það hefði ekki tekist nema vegna þess að stjórnmálaflokkarnir hafa teygt sig gríðarlega langt til þess að ná samkomulagi og unnið af miklum heilindum í nefndarstarfinu.“